Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 28.3.2024 10:08:18


Ξ Valmynd

7.8.4  Lækkun vegna framfærslu foreldra eða annarra vandamanna

Við mat á ívilnun er litið til tekna og aðstæðna vandamanns og hvernig framfærslu hans er farið, án tillits til gjaldþols umsækjanda. Ef framfærsla er á hendi fleiri en eins er ívilnun skipt eftir framlagi hvers og eins. Þá er horft til þess hvaða möguleika vandamaðurinn hefur til að standa undir framfærslu sinni án aðstoðar annarra.

Vandamaður sem nýtur eðlilegra greiðslna frá lífeyristrygginga- og almannatryggingakerfi telst ekki á framfæri annarra, nema því aðeins að um sé að ræða aukinn framfærslukostnað hjá honum vegna sjúkdóms eða sérþarfa og greiðslugeta til að mæta þessum kostnaði sé ekki fyrir hendi.

Við mat á ívilnunarfjárhæð er tekið mið af framfærslukostnaði samkvæmt lágmarks neysluviðmiðunum og þess aukakostnaðar sem um er að ræða vegna veikinda eða annarra sérstakra atvika.


Vandamenn erlendis

Allar almennar reglur gilda þótt vandamaður á framfæri umsækjanda sé ekki með lögheimili á Íslandi. Sömu kröfur eru gerðar um fullnægjandi gögn um kostnað og framfærslumöguleika. Að auki þarf að leggja fram gögn sem sýna millifærslu fjármuna, viðtakanda þeirra og erlent skattframtal sem sýnir tekjur vandamannsins erlendis eða jafngilt vottorð frá þar til bærum yfirvöldum.


Tekjulaus og tekjulítil ungmenni

Heimilt er að veita ívilnun vegna framfærslu barns á aldrinum 16-21 árs sem ekki stundar nám, en vegna atvinnuleysis eða af öðrum ástæðum er það tekjulágt að það getur ekki staðið undir eigin framfærslu. Er miðað við hámarksívilnun kr. 330.000 við álagningu 2013. Hafi barnið tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum þess og kemur því ekki til álita ef tekjurnar eru umfram 990.000 kr. á árinu 2012. Sömu fjárhæðir gilda um ívilnun vegna námsmanna.

Sækja skal um ívilnun vegna framfærslu ungmenna í framhaldsskóla í kafla 1.3 á forsíðu skattframtalsins.

 

Fara efst á síðuna ⇑