Leiđbeiningar um rafrćn skil, sótt 18.7.2024 07:21:53


Ξ Valmynd

6.2  Breyting á skráningu

Almennt

Til þess að skrá breytingar þarf að smella á fyrirtækjaskrá inni á þjónustuvef Skattsins og fara svo í breytingar. Næst er smellt á stofna nýja breytingu og þá kemur upp síða af öllum þeim atriðum sem hægt er að óska breytinga á.

Til þess að breyta t.d. framkvæmdastjóra félagsins þá þarf að haka við það á yfirlitssíðunni og smella á áfram. Því næst þarf að smella á mínusinn til að fella brott núverandi framkvæmdastjóra og svo á plúsinn til að bæta þeim nýja við.

Þegar breyting hefur verið skráð útbýr kerfið tilkynningu um breytingu, þegar gögnin hafa verið staðfest af breytingaraðila eru gögnin send hlutaðeigandi til undirritunar. Til þess að undirrita breytingu verður viðkomandi að vera innskráður á sitt persónulega þjónustusvæði en ekki þjónustusvæði félagsins.

Á meðan beiðni um breytingu er til meðferðar hjá ríkisskattstjóra, það geta verið margar breytingar í sömu tilkynningunni, er ekki hægt að senda inn nýja beiðni um breytingu heldur verður að afgreiða og samþykkja þá fyrri fyrst.

Breyting á nafni

Hér skal skrá nýtt firmaheiti félagsins. Tölvukerfið mun athuga hvort einhver firmaheiti eða vörumerki séu til á skrá sem hugsanlega gætu komið í veg fyrir skráningu firmaheitis félagsins. Eingöngu er um einfalda leit að ræða og sérfræðingar fyrirtækjaskrár munu skoða firmaheitið betur þegar gögnin eru komin til afgreiðslu. Þótt engin ábending komi upp um hugsanlega of lík firmaheiti þá þarf það ekki að þýða að firmaheitið verði samþykkt. Hægt er að skrá erlent aukheiti en það verður að vera sem beinust þýðing af íslensku aðalheiti félagsins. Kerfið býr til nýjar samþykktir og aukatilkynningu sem meirihluti stjórnarmanna eða prókúruhafi þarf að undirrita.

Breyting á lögheimili

Hér er hægt að skrá breytingu á lögheimili félagsins sem ákveðin hefur verið á hluthafafundi. Athugið að ef breyta á póstfangi félags þá verður að gera það sérstaklega, póstfangið uppfærist ekki sjálfkrafa til samræmis við breytingu á lögheimili.

Breyting á stjórn

Samkvæmt lögum verður að vera einn maður í stjórn og ef það er aðeins einn í stjórn þá verður einnig að kjósa varamann. Séu tveir eða fleiri í stjórn er ekki skylda að kjósa varamann þótt það sé heimilt. Séu tveir eða fleiri í stjórn skal velja stjórnarformann og aðrir stjórnarmenn kallast meðstjórnendur. Stjórnarmenn skulu vera orðnir 18 ára, lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.

Breyting á framkvæmdastjóra

Stjórn félags getur ráðið einn eða fleiri framkvæmdastjóra. Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra þar sem starfa 50 eða fleiri starfsmenn og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórar skulu vera orðnir 18 ára, lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.

Prókúruumboð

Einungis félagsstjórn getur veitt prókúruumboð.

Endurskoðandi/skoðunarmaður

Endurskoðandi/skoðunarmaður skal vera óháður viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Skoðunarmaður verður að vera einstaklingur og getur ekki verið lögaðili.

Hlutafé

Sem stendur er ekki hægt að tilkynna hækkun og lækkun hlutafjár í gegnum rafræna fyrirtækjaskrá. Tilkynningar um hækkun og lækkun skulu því berast á þar til gerðum tilkynningareyðublöðum.

Tilgangur

Þegar tilgangi félags er breytt verður að gæta þess að uppfæra einnig ÍSAT atvinnugreinanúmerið í felligluggunum hér á síðunni.

Aðrar breytingar

Reikningsár: Ef breyta á reikningsári félags veitir ríkisskattstjóri heimild til að miða skattskil við annað reikningsár en almanaksárið, sbr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Hömlur á viðskipti: Ef ekki á leggja hömlur á viðskipti með hluti félagsins verður félagið að hafa löggiltan endurskoðanda.

Ef ekki eru valin staðalgildi við skráningu á hömlum, sérréttindum, innlausnarskyldu eða firmaritun skal leiðrétta skráninguna eða hlaða upp eigin samþykktum.

Gögn til undirritunar

Vinsamlegast athugið að ef hlaða á upp eigin samþykktum skulu þær vera á pdf formi. Gögn til undirritunar birtast á þjónustusvæði aðila sem tengdir eru félaginu en ekki á þjónustusvæði félagsins sem verið er að skrá breytingar fyrir.

Rafrænar staðlaðar samþykktir

Ef óskað er eftir því að rafræn fyrirtækjaskrá útbúi nýjar samþykktir fyrir félagið þarf að ganga úr skugga um að eftirfarandi staðalgildi séu valin í breytingarfasa.

Eru hömlur lagaðar á viðskipti með hluti:

Fylgja sérréttindi hlutum samkvæmt samþykktum félagsins: Nei

Hvílir innlausnarskylda á nokkrum hlutum samkvæmt samþykktum félagsins: Nei

 

Firmaritun: Í eins manns stjórn er það stjórnarmaður. Í fjölskipaðri stjórn er það meirihluti stjórnar.

Undirritun skjala

Við nýskráningu: : Þegar um er að ræða nýskráningu verða allir stjórnarmenn og endurskoðendur/skoðunarmenn að undirrita tilkynninguna um stofnun. Þá verða allir stofnendur að undirrita stofnskrá/stofnsamning. Undirritun prókúruhafa eða meirihluta stjórnar nægir á stofnfundargerð og samþykktir. Allir stjórnarmenn verða því ekki að undirrita samþykktir og stofnfundargerð, ef prókúruhafi/meirihluti stjórnar hefur lokið við að undirrita þau skjöl þá fer kerfið ekki fram á undirritun annarra stjórnarmanna.

 

 

Fara efst á síđuna ⇑