Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 21.11.2024 15:57:01


Ξ Valmynd

7.26  Greinargerð um aflaverðmæti og rekstrarkostnað fiskiskipa - RSK 4.29

Eyðublað RSK 4.29 er eingöngu fylgiskjal með skattframtali hjá lögaðila eða einstaklingi í útgerð.
Hér er um að ræða upplýsingaöflun skv. 5. gr. laga nr. 145/2018 um veiðigjald. Útreikningur veiðigjalds byggist eingöngu á þeim upplýsingum sem safnað er með þessu eyðublaði, og því er mikilvægt að vandað sé til verka við útfyllingu þessa eyðublaðs!
Fylla skal út upplýsingar um aflaverðmæti og aflamagn pr. fisktegund og útgerðarkostnað, sundurliðað niður á einstakt fiskiskip/bát.
Ath. Ef um er að ræða áritað skip eða bát, sem er ekki á vegum framteljanda, getur þurft að færa 1 kr. í tekjur og gjöld á blaðinu og skila því þannig.  Þá skal gerð grein fyrir ástæðum slíkrar útfyllingar í athugasemdasvæðinu neðst á blaðinu!

Fylla þarf út upplýsingar fyrir sérhvert skip/bát sem framteljandi gerði út á árinu (hvert skip/bátur kemur fram í sérstökum kafla á eyðublaðinu).

Skýringar við einstaka reiti

Nafn skips
Hér skal skrá heiti og skráningarnúmer (einkennisstafir og númer) skips eða báts.
Nafn og skráningarnúmer kemur forskráð í rafrænu framtali, eins og það stendur í árslok skv. Skipaskrá.

Skipaskrárnúmer
Hér skal skrá skipaskrárnúmer skips eða báts.
Kemur forskráð í rafrænu framtali.

Aflaverðmæti
Söluverð landaðs afla skipsins. Þetta er samtala alls aflaverðmætis viðkomandi skips, sem sundurliðað er niður á landaðar fisktegundir.

Aðrar tekjur
Allar aðrar tekjur skips en aflaverðmæti, svo sem leigutekjur aflamarks.

2.1 Laun af aflahlutum
Hlutur áhafnar af aflaverðmæti landaðs afla skipsins.

2.2 Önnur laun áhafnar
Önnur laun áhafnar skipsins sem tengist úthaldi þess.

Launatengd gjöld vegna 2.1 og 2.2
Hér er um að ræða allan annan kostnað sem beint tengist sjómönnum og launum þeirra, svo sem tryggingagjald, mótframlag í lifeyrissjóð, stéttarfélagsgjöld, tryggingar áhafnar, fæðiskostnaõur, hlífðarfatnaður o.fl.

Skattaleg fyrning skips og skipsbúnaðar á árinu
Hér skal færa skattalega fyrningu skips/báts á árinu, auk skattalegrar fyrningar af eignfærðum tækjum og búnaði um borð.
Hér er um að ræða fyrningu eigna í fyrningarflokkum 0211 til 0299 skv. eignaskrá RSK 4.01 með framtali.

Orkukostnaður (Eldsneyti)
Eldsneytiskostnaður vegna úthalds skipsins.

Viðhaldskostnaður
Viðhaldskostnaður vegna úthalds skipsins.

Veiðarfærakostnaður
Allur kostnaður vegna veiðarfæra og þ.m.t. beita.

Frystikostnaður
Frystikostnaður vegna landaðs afla skipsins.

Umbúðakostnaður
Umbúðakostnaður vegna landaðs afla skipsins.

Löndunarkostnaður og hafnargjöld
Allur kostnaður við löndun afla, ís, flutnings aflans í land og kostnaður við að skipið sé í höfn.

Flutningskostnaður
Flutningskostnaður vegna landaðs afla skipsins.

Tryggingar
Tryggingar skips, húf- og hagsmunatryggingar (rekstrarstöðvunartrygging) og tryggingar veiðarfæra og afla um borð.

Sölukostnaður
Sölukostnaður landaðs afla, t.d. hjá fiskmörkuðum eða við útflutning.

Stjórnunarkostnaður
Laun stjórnenda í landi, skrifstofukostnaður o.þ.h.
Hér skal einnig færa eftirlits- og leyfisgjöld í fiskveiðum, önnur en veiðigjöld.

Önnur rekstrargjöld
Öll önnur rekstrargjöld skips sem ekki eru meðtalin undir öðrum liðum að ofan. Hér má nefna sem dæmi veiðigjöld, leigu aflamarks, Hafróafli (VS-afli), net- og símakostnaður um borð, beitningsskúr, veiðarfærageymsla o.fl.

 

Fara efst á síðuna ⇑