Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 21.11.2024 12:00:05


Ξ Valmynd

7.11.1  Launatekjur erlendis

Hafi framteljandi aflað launatekna erlendis, á sama tíma og hann var heimilisfastur hér á landi, ber honum að gera grein fyrir þeim tekjum í lið 2.8 á framtali. Hér er átt við hvers konar launatekjur, starfstengdar greiðslur og hlunnindi sem taldar eru upp í kafla 2 á framtali. Lífeyrisgreiðslur erlendis frá ber einnig að telja fram í lið 2.8. Tilgreina skal í hvaða landi teknanna er aflað og fjárhæð í erlendri mynt, sem og greidda skatta erlendis. Fjárhæðina skal umreikna í íslenskar krónur á meðalkaupgengi þess tíma þegar teknanna var aflað og færa í reit 319.

Upplýsingar um gengi gjaldmiðla má fá á heimasíðu Seðlabankans, sedlabanki.is

Hafi tekna verið aflað í ríki sem í gildi er tvísköttunarsamningur, er farið með þær tekjur samkvæmt ákvæðum þess samnings. Mismunandi er eftir samningum hvaða aðferð er beitt til að komast hjá tvísköttun og e.t.v. eru tekjurnar skattskyldar á Íslandi að fullu. Sé um að ræða tekjur frá ríki sem ekki er tvísköttunarsamningur við þarf að leggja fram gögn sem sýna greiddan skatt erlendis.

 

Fara efst á síðuna ⇑