Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 2.12.2024 07:49:19


Ξ Valmynd

1.6  Fjárhæðir

Sú fjárhæð sem hverjum einstaklingi er heimilt að taka út án þess að teljast til skattskyldra tekna og verja til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði, eða til að greiða inn á lán vegna kaupanna, getur að hámarki numið samtals 500 þús. kr. fyrir hverja tólf mánuði á almanaksári í samfellt tíu ár. Eigið framlag einstaklings getur numið allt að 4% af iðgjaldsstofni og að hámarki 333 þús. kr., og framlag launagreiðanda getur numið allt að 2% og að hámarki 167 þús. kr. Framlag einstaklingsins má jafnframt ekki vera lægra en framlag launagreiðandans.

Samtals nemur hámarksheimild því 5.000.000 kr. á tíu ára samfelldu tímabili.

Fjárhæð á upphafsári/lokaári
Þær fjárhæðir sem heimilt er að taka út án skattskyldu á fyrsta og síðasta ári samfellds tíu ára tímabils miðast hlutfallslega við það tímamark sem tilgreint er í umsókn hvers og eins og hámarksfjárhæð hvers árs. Athuga þarf að hámarksfjárhæð á árinu 2017 getur aldrei orðið hærri en 250.000 kr. og það sama gildir um árið 2027, ef úttekt hefst miðað við 1. júlí 2017.

Dæmi 1:
Maður kaupir sína fyrstu íbúð í desember 2017. Hann er að greiða í séreignarlífeyrissjóð og sækir um í janúar 2018 að taka út iðgjöld vegna kaupanna. Hann velur að miða útborgun við launagreiðslur frá 1. júlí 2017. Hámarkið sem heimilt er að taka út án skattskyldu er í þessu dæmi 250.000 kr. Jafnframt þarf að uppfylla önnur skilyrði þannig að heimil úttekt getur verið lægri fjárhæð af því t.d. að iðgjöldin ná ekki 250.000 kr. á tímabilinu 1. júlí – 31. desember 2017. Þessum einstaklingi væri heimilt að taka út iðgjöld frá og með janúar 2018 til og með júní 2027 til að greiða inn á lán vegna íbúðarkaupanna, að hámarki 500.000 kr. á hverju ári, nema á árinu 2027 en þá yrði hámarkið 250.000 kr.
Dæmi 2:
Maður kaupir sína fyrstu íbúð í júlí 2020 og sækir þá strax um að taka út séreignarsparnað. Þessi maður getur sótt um úttekt alveg frá 1. júlí 2014 en þar sem hann hafði litlar launatekjur á þeim tíma getur hann valið að taka út frá síðara tímamarki. Tíu ára samfelldi tíminn telst þá frá þeim upphafsdegi úttektir sem maðurinn velur. Ef hann t.d. velur að taka út miðað við launagreiðslur frá 1. janúar 2018 má hann í júlí 2020 taka út að hámarki samtals 1.250.000 kr. vegna áranna 2018 til júlí 2020. Eftir það getur hann ráðstafað greiðslum inn á lán vegna kaupanna og hámark þess getur samtals orðið 3.750.000 kr. á tímabilinu frá júlí 2020 til ársloka 2027.

 

Fara efst á síðuna ⇑