Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 18.1.2025 08:52:47


Ξ Valmynd

7.8.3  Lækkun vegna veikinda eða fötlunar barns

Við mat á ívilnun er fyrst og fremst litið til þess aukna framfærslukostnaðar sem sýnt er fram á að leiði af langvarandi sjúkdómi eða fötlun barns sem er á framfæri umsækjanda og fær ekki greiddan lífeyri. Ef um sameiginlega forsjá er að ræða og fyrir liggur að kostnaður er greiddur af báðum forsjáraðilum er ívilnunarfjárhæð skipt á milli þeirra.

Kostnaður og fengnar greiðslur

Eingöngu kemur til álita að veita ívilnun á móti kostnaði sem er greiddur af forráðamönnum og er umfram fengnar greiðslur af sama tilefni. Fengnar greiðslur geta verið bætur, styrkir, umönnunargreiðslur og lífeyrir sem greiddur er vegna veikinda eða fötlunar barnsins

Sem dæmi um kostnað sem leitt getur til ívilnunar er kostnaður vegna aukinnar gæslu barns, sérútbúnaðar, aðlögunar á húsnæði eða annarri aðstöðu fyrir barnið, sérfæðis og slíks sem tilkomið er vegna veikindanna eða fötlunarinnar.

Við mat á ívilnun er miðað við þann kostnað sem er umfram venjuleg útgjöld vegna barna og leiðir beint af veikindunum eða fötluninni.


Einstaklingsmiðuð þjónusta

Í stað þess að fá þjónustu frá sveitarfélagi getur fatlaður einstaklingur samið um að fá ákveðnar greiðslur á grundvelli mats á þörfum hans. Hann ræður þá sjálfur fólk til að annast ýmis verkefni. Við þessar aðstæður ber að telja greiðslurnar til tekna og kostnaðinn til frádráttar. Athugið að greiðslur til einstaklinga eða fyrirtækja vegna slíkrar þjónustu þarf að gefa upp á launamiða sem vinnulaun/verktakalaun. Launamiðum skal skila til ríkisskattstjóra.

Ef einstaklingurinn þarf að auki að standa sjálfur undir kostnaði vegna fötlunar sinnar getur það veitt rétt til ívilnunar á sama hátt og hjá öðrum. 

 

 

Fara efst á síðuna ⇑