Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 18.1.2025 09:10:57


Ξ Valmynd

7.2  Sjómannaafsláttur

Þeir sem fá greidd laun fyrir sjómannsstörf á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, eiga rétt á sjómannaafslætti. Sjómannaafslátturinn er reiknaður eftir þeim upplýsingum sem færðar eru í lið 1.5 á fyrstu síðu framtals. Framteljandi sem gerir kröfu um sjómannaafslátt verður undantekningarlaust að fylla út Greinargerð um sjómannaafslátt RSK 3.13, og skila með framtali sínu. Sjómannaafsláttur árið 2012 er 493 kr. á dag.
 
Dagar til útreiknings sjómannaafsláttar
Dagar sem veita rétt til sjómannaafsláttar eru þeir dagar sem stunduð hafa verið sjómannsstörf á skipi, auk þeirra daga sem veita rétt til launa í veikindum samkvæmt kjarasamningi. Þessir dagar færast í dálk B í greinargerðinni og reiknast til sjómannaafsláttar með margfeldinu 1,49. Ekki er þó hægt að fá sjómannaafslátt fyrir fleiri daga en ráðningartími hjá útgerð segir til um. Fjölda ráðningardaga skal færa í dálk A.

Hjá hlutaráðnum beitningarmönnum skal miða við þá daga sem þeir voru ráðnir til slíkra starfa samkvæmt samningi um hlutaskipti. Hjá mönnum á fiskiskipum undir 20 brúttótonnum er réttur til sjómannaafsláttar háður því að laun fyrir sjómennsku séu a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni þeirra.

Lögskráning
Lögskráð er á öll skip. Lögskráningardagar, samkvæmt skráningu Siglingastofnunar, hafa verið áritaðir á eyðublaðið RSK 3.13 ásamt kennitölu útgerðar og nafni og númeri skips. Þessari tölu á ekki að breyta nema því aðeins að bæta þurfi við dögum sem sjómaður gat ekki stundað vinnu vegna veikinda eða slysa, en fengið greidda samkvæmt kjarasamningi.
Sjómenn á skipum sem skráð eru erlendis, en gerð út af íslenskum skipafélögum, þurfa sjálfir að færa inn upplýsingar um lögskráningardaga.
 
Ráðningartími
Í dálk A skal færa fjölda daga sem sjómaður er ráðinn hjá útgerð til sjómannsstarfa. Til ráðningartímans skal telja orlof og aðra ónýtta frídaga sem gerðir eru upp við lok ráðningar.
 
Sjómannslaun
Í dálkinn sjómannslaun færa launamenn þau laun sem þeir hafa fengið greidd fyrir sjómannsstörf. Þeir sem eru með eigin útgerð og stunda sjómennsku á eigin fari færa sem sjómannslaun reiknað endurgjald og tekjur af atvinnurekstri samanlagt.

 

Fara efst á síðuna ⇑