Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 22.12.2024 10:37:51


Ξ Valmynd

7.13.2  Umsókn um skattalega heimilisfesti

Sækja þarf um skattalega heimilisfesti árlega með framtali. Það skal gert með því að fylla út eyðublað RSK 3.26, sem er eitt af fylgiskjölum vefframtalsins. Fyrir hjón og sambúðarfólk er nóg að annað skili umsókn þótt þau stundi bæði nám. Viðeigandi gögn þurfa að fylgja umsókn.
 
Vottorð um nám erlendis
Árlega þarf að leggja fram staðfestingu frá skóla þar sem fram kemur:
  • hvaða nám var stundað og hve lengi á tekjuárinu
  • hvenær nám hófst
  • áætluð námslok
Upplýsingar um tekjur erlendis
Námsmaður og maki hans þurfa að leggja fram staðfestingu um tekjur eða tekjuleysi erlendis frá viðkomandi skattyfirvöldum. Nægilegt er að leggja fram:
  • staðfest ljósrit af erlendum framtölum ef tekjur koma þar fram eða
  • skriflegt tekjuvottorð frá erlendum skattyfirvöldum eða
  • erlenda álagningarseðla eða staðfestingu á skattauppgjöri.
Einnig skal fylgja með framtali staðfesting á barnabótum eða sambærilegum greiðslum, fengnum erlendis á tekjuárinu.
 
Fyrir námsmenn erlendis er afar hentugt að telja fram á vefnum. Upplýsingar um vefframtalið og veflykla eru í kafla 1.8.2. Á framtali þarf að koma fram póstfang námsmannsins erlendis eða umboðsmanns hér á landi og hvert hafi verið síðasta lögheimili námsmanns hér á landi.
 
Réttindi veitt í eitt ár í senn
Námsmaður sem óskar eftir að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti þarf að sækja um það á framtali á hverju ári sem námið er stundað. Leggja þarf fram nýjar upplýsingar um námið á hverju ári ásamt staðfestingu frá skóla, tekjuvottorði frá skattyfirvöldum erlendis og staðfestingu um barnabætur erlendis.
 
Ríkisskattstjóri annast ákvörðun
Ríkisskattstjóri tekur ákvörðun um rétt námsmanns til að halda skattalegri heimilisfesti á Íslandi. Almennar reglur um kærur til skattyfirvalda gilda í þessum tilvikum. Ef ríkisskattstjóri fellst ekki á að veita skattalega heimilisfesti er skattlagning miðuð við takmarkaða skattskyldu, þ.e. námsmaðurinn er einungis skattlagður hafi hann haft tekjur hér á landi eftir að lögheimili hefur verið flutt frá landinu.

 

Fara efst á síðuna ⇑