Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 12.5.2024 08:27:53


Ξ Valmynd

7.8  Umsókn um lækkun á tekjuskattsstofni

Í 65. grein skattalaganna er að finna heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni. Sé tekjuskattsstofn lækkaður samkvæmt heimild í 65. grein lækkar útsvarsstofn um sömu fjárhæð og fer sú lækkun eftir ákvæðum 21. greinar laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þá á framteljandi rétt á að óska frekari lækkunar útsvars hjá viðkomandi sveitarfélagi sbr. 1. mgr. 25. greinar sömu laga.
 
Lækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni er heimil þegar þannig er ástatt:
 
 
Veikindi, slys, ellihrörleiki
Ef veikindi, slys, ellihrörleiki eða mannslát hafa í för með sér verulega skert gjaldþol.
 
 
Veikindi barns
Ef maður hefur á framfæri sínu barn sem haldið er langvinnum sjúkdómi sem hefur í för með sér veruleg útgjöld umfram venjulegan framfærslukostnað.
 
 
Fatlað barn
Ef maður hefur á framfæri sínu barn sem er fatlað og útgjöld vegna þess eru verulega hærri en venjulegur framfærslukostnaður.
 
 
Framfærsla vandamanna
Ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn á framfæri sínu. Við mat á ívilnun vegna framfærslu barns á aldrinum 16-21 árs sem ekki stundar nám, en vegna atvinnuleysis eða af öðrum ástæðum er það tekjulágt að það getur ekki staðið undir eigin framfærslu, er miðað við hámarksívilnun kr. 301.000 við álagningu 2011. Hafi barnið tekjur skerðist ívilnunin sem nemur þriðjungi af tekjum þess.
Sækja skal um ívilnun vegna framfærslu ungmenna í framhaldsskóla í kafla 1.3 á forsíðu framtalsins.

Eignatjón
Hafi maður orðið fyrir verulegu eignatjóni sem hann hefur ekki fengið bætt. Með verulegu eignatjóni er hér átt við að fjárhagslegar afleiðingar tjóns sem verður á eignum manns skerði gjaldþol hans. Ívilnun kemur ekki til álita ef mögulegt er að fjá tjónið bætt úr hendi annars aðila.
 
 
Tapaðar kröfur
Hafi gjaldþol manns skerst verulega vegna tapa á útistandandi kröfum sem ekki tengjast atvinnurekstri hans. Þetta gildir m.a. um ábyrgðir sem fallið hafa án möguleika til endurkröfu.

 

Fara efst á síðuna ⇑