Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 24.11.2024 04:22:59


Ξ Valmynd

7.25  Skjölunarskyldir lögaðilar - RSK 4.28

4. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt
Lögaðilar teljast tengdir í skilningi 3. mgr. þegar:
a.  þeir eru hluti samstæðu skv. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða eru undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu, eða
b.  meirihlutaeignarhald eins lögaðila yfir öðrum er til staðar samanlagt með beinum og óbeinum hætti, eða
c.  þeir eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu eða undir stjórnunarlegum yfirráðum einstaklinga sem eru tengdir sifjaréttarlegum böndum, t.d. einstaklinga í hjónabandi eða staðfestri samvist, systkina og einstaklinga sem eru skyldir í beinan legg.

5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt
Ef rekstrartekjur lögaðila á einu reikningsári eða heildareignir í upphafi eða við lok reikningsárs eru yfir 1 milljarði kr. er hann skjölunarskyldur frá og með næsta reikningsári vegna viðskipta við tengda lögaðila, sbr. 4. mgr. Með skjölunarskyldu er átt við að lögaðili skrái upplýsingar um eðli og umfang viðskipta við tengda lögaðila, eðli tengsla og grundvöll ákvörðunar milliverðs. Skjölunarskyldur aðili skal varðveita sérstaklega gögn um slík viðskipti, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á að verð og skilmálar séu sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila undir sambærilegum kringumstæðum. Skjölunarskylda gildir ekki um viðskipti milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi. Gagna og upplýsinga skal gæta í sjö ár frá lokum reikningsárs. Lögaðili skal staðfesta skjölunarskyldu við framtalsskil og að fullnægjandi skjölun hafi átt sér stað. Lögaðili skal bregðast við beiðni skattyfirvalda um aðgang að skjölunarskyldum gögnum eigi síðar en 45 dögum eftir að beiðnin kom fram.

Leiðbeiningar um útfyllingu
Þeir skattskyldu lögaðilar sem eru skjölunarskyldir skv. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu fylla út eyðublað þetta í samræmi við form þess. Upplýsa skal um erlenda lögaðila sem eru tengdir þeim og viðskipti hafa verið við á árinu. Gildir það þótt um sé að ræða minniháttar viðskipti sem ekki ber að skjala. Skrá skal nafn, kennitölu (ef við á), Tin auðkenni, heimilisfestisríki, form tengsla, tegund og fjárhæðarbil viðskipta og geta þess hvort skjölun hafi átt sér stað. Hafi skjölun ekki farið fram skal skýra ástæður þess í athugasemdarglugga. Séu viðskipti af fleiri en einni tegund getur þurft að skrá sama lögaðila í fleiri en eina línu. Allar merkingar og upplýsingar sem færðar eru á eyðublað þetta skulu taka mið af reikningsári hins skjölunarskylda lögaðila.
1. Geta skal fulls nafns tengds lögaðila.
2. Hafi tengdur lögaðili íslenska kennitölu skal geta hennar.
3. Tilgreina skal Tin-númer hins tengda lögaðila sem skjölunarskyldur aðili hefur átt í viðskiptum við.
4. Geta skal heimilisfestisríkis tengds lögaðila.
5. Form tengsla a, b eða c skulu skráð í samræmi við 4. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 (sjá hér að ofan).
6. Skrá skal eina tegund viðskipta í hverja línu sbr. tilgreinda kóða hér að neðan.
7. Greina skal frá fjárhæð viðskipta á reikningsárinu innan greindra verðbila, sjá hér að neðan.
8. Staðfesta skal hvort skjölun hafi farið fram eða ekki.

Tegund viðskipta:

Rekstur
V  Vörusala
K  Vörukaup
S  Sala á þjónustu
M  Kaup á þjónustu
T  Vaxtatekjur af lánveitingum
G  Vaxtagjöld af lánveitingum
R  Þóknanir
I  Kostnaðarskipting/ -þáttaka (Intra Group Services)
H  Hagnaður/tap af sölu eigna

Efnahagur
E  Sala á efnislegum eignum
P  Kaup á efnislegum eignum
O  Sala á óefnislegum eignum
B  Kaup á óefnislegum eignum
C  Sala á hlutabréfum og öðrum fjármálagerningum
D  Kaup á hlutabréfum og öðrum fjármálagerningum
L  Veitt lán, árslokastaða
F  Fengin lán, árslokastaða

Fjárhæð viðskipta á ári:
1)  < 10.000.000 kr.
2)  10.000.000 - 50.000.000 kr.
3)  50.000.000 - 100.000.000 kr.
4)  100.000.000 - 250.000.000 kr.
5)  250.000.000 - 500.000.000 kr.
6)  500.000.000 - 1.000.000.000 kr.
7)  1.000.000.000 - 2.500.000.000 kr.
8)  2.500.000.000 - 5.000.000.000 kr.
9)  5.000.000.000 - 10.000.000.000 kr.
10)  > 10.000.000.000 kr.

NB. Ef félagið er ekki í viðskiptum við erlendan tengdan aðila, þá skal haka við því til staðfestingar í þar til gerðan reit á RSK 4.28 blaðinu!

 

Fara efst á síðuna ⇑