Leiđbeiningar um rafrćn skil, sótt 19.4.2024 11:51:09


Ξ Valmynd

2.6.7  25% frádráttur frá tekjum erlendra sérfrćđinga


Heimilt er að draga frá tekjuskattsstofni 25% af tekjum ákveðinna erlendra sérfræðinga (sem uppfylla ákveðin skilyrði).  Heimild þessa er að finna í 6. tölul. A-liðar 30. greinar skattalaga nr. 90/2003, og hljóðar hún svo:

Frá tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má draga 25% tekna skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. þeirra erlendu sérfræðinga sem skattskyldir eru skv. 1. eða 3. gr., fyrstu þrjú árin frá ráðningu í starf, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

  1. Erlendur sérfræðingur sé ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og er sá sem greiðir hinum erlenda starfsmanni tekjur sem sérfræðingi.
  2. Erlendur sérfræðingur hafi ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó þannig að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljast ekki með.
  3. Erlendur sérfræðingur búi yfir þekkingu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi nema í litlum mæli.

Skrifleg umsókn um staðfestingu á því að tiltekinn erlendur sérfræðingur uppfylli skilyrði ákvæðisins skal send nefnd, sbr. 3. mgr. Umsókn um staðfestingu ásamt fylgigögnum skal berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi. Vinnuveitandi og/eða starfsmaður skulu senda nefndinni umsókn og skal hún innihalda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru hlutlægu mati nefndarinnar, sbr. a–c-lið 1. mgr. og 4. mgr.

Ráðherra skipar nefndina sem meta skal hvort skilyrði 1. mgr. fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni séu uppfyllt. Skulu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og ráðherra sem fer með fræðslumál tilnefna sinn fulltrúa hvor, en sá þriðji skal skipaður án tilnefningar og vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Nefnd skv. 3. mgr. skal fara yfir þær umsóknir sem berast og meta þær m.a. með tilliti til menntunarstigs, sérþekkingar, reynslu og fjárhæðar launa. Telji nefndin umsækjanda uppfylla skilyrði ákvæðisins skal hún veita umsækjanda staðfestingu á því en hafna umsókn ella. Afrit af staðfestingu umsóknar skal senda ríkisskattstjóra.

Ákvörðun nefndar skv. 4. mgr. er endanleg á stjórnsýslustigi.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um form og skilyrði umsókna, þær kröfur sem erlendir sérfræðingar þurfa að uppfylla, svo sem varðandi menntun, reynslu og fyrri störf, auk ráðningarsamninga, ásamt starfsháttum nefndarinnar og nefndarskipan.

Þeir erlendu sérfræðingar sem fengið hafa heimild til þessa 25% frádráttar frá tekjum skulu gera grein fyrir frádrættinum í reit 159 í kafla 2.6 á tekjuhlið framtals. Aðrir framteljendur geta ekki fyllt út þennan frádrátt (og sjá því ekki reit 159 á framtali sínu).

 

Fara efst á síđuna ⇑