Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 4.12.2024 08:55:29


Ξ Valmynd

1.8.5  Áritun á framtal og sundurliðunarblað

Áritun á framtal og sundurliðunarblað
Skattyfirvöld safna upplýsingum í flesta kafla framtalsins frá launagreiðendum, Tryggingastofnun ríkisins, Atvinnuleysistryggingasjóði, hlutafélögum, fjármálastofnunum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Samgöngustofu, Þjóðskrá Íslands, Fjársýslu o.fl. aðilum. Þær upplýsingar sem berast í tæka tíð eru áritaðar á framtölin og/eða á svokallað sundurliðunarblað.

Sundurliðunarblaðið er ekki hluti af framtalinu heldur hefur að geyma frekari sundurliðun þeirra upplýsinga sem búið er að árita á framtalið auk upplýsinga sem eiga erindi inn á framtalið en ekki liggur fyrir við áritun í hvaða reiti þær eigi að rata, s.s. lánaupplýsingar. Hjá sumum framteljendum eru að auki upplýsingar sem ekki voru færðar inn á framtal en eiga e.t.v. erindi þangað.

Áritun á vefframtalið er nokkru ítarlegri en á pappírsframtalið og því þurfa þeir sem skila á pappír í meira mæli að flytja upplýsingar af sundurliðunarblaði yfir á framtalið. Leiðbeiningar þar um er að finna á bakhlið sundurliðunarblaðsins sem dreift er með framtölum. Þess ber að geta að á pappírsframtalið er skráð samtala launa og sama á við verðmat fasteigna. Á vefframtalið eru skráð laun frá hverjum launagreiðanda og verðmat hverrar fasteignar. Á vefframtal eru einnig færðar upplýsingar um kaup og sölu eigna, en þær eru ekki áritaðar á pappírsframtal. Annars vegar eru upplýsingar um kaup og sölu ökutækja færðar á forsíðu vefframtals. Hins vegar upplýsingar um fasteignaviðskipti sem færðar eru á fylgiskjalið RSK 3.02, sem er fyrir kaup og sölu eigna sem ekki tengjast atvinnurekstri.

Í þessum leiðbeiningum er fjallað um áritun í einstaka kafla og reiti framtalsins og hún skýrð nánar þar sem við á.

Leiðréttingar á árituðum upplýsingum
Þurfi að leiðrétta fjárhæðir á vefframtali er skrifað ofan í tölurnar sem fyrir eru.

 

Fara efst á síðuna ⇑