Leiđbeiningar um rafrćn skil, sótt 29.3.2024 08:35:32


Ξ Valmynd

2.8  Tekjur erlendis

Hafi tekna verið aflað erlendis, á sama tíma og maður var heimilisfastur hér á landi, skal færa þær undir þennan lið. Færa skal allar tekjur sem aflað hefur verið erlendis á árinu, aðrar en arð, vaxtatekjur, laun frá alþjóðstofnunum, leigutekjur og söluhagnað. Tekjur sem hér skal færa eru:
  • Almenn laun
  • Eftirlaun/lífeyrir
  • Almannatryggingar
  • Eftirlaun/lífeyrir opinberir sjóðir
  • Laun frá opinberum aðilum
  • Sjálfstæð starfsemi
  • Hagnaður af atvinnurekstri
  • Stjórnarlaun
  • Sjómennska á fiskiskipi
  • Áhafnir flutningaskipa á alþjóðaleiðum
  • Áhafnir flugvéla á alþjóðaleiðum
  • Höfundarlaun (þóknanir)
  • Listamenn og íþróttamenn
  • Erlendir námsmenn
  • Gestaprófessorar erlendis
  • Skattskyldir vinningar
  • Aðrar tekjur
Gefa skal upp í hvaða landi teknanna var aflað og fjárhæð þeirra í erlendri mynt, auk greiddra skatta. Jafnframt þarf að gera grein fyrir því í hvaða mynt tekjurnar voru greiddar og hægt er að velja hvort tekjurnar hafi verið greiddar yfir allt árið eða einstaka mánuði. Gera skal grein fyrir nafni launagreiðanda. Fjárhæð tekna í íslenskum krónum reiknast sjálfkrafa miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Þá þarf að tilgreina eðli teknanna með því að velja viðeigandi tekjuflokk í fellilista vefframtals.
 

Tekjur erlendis sem ekki færast í kafla 2.8

Arð og söluhagnað af erlendum hlutabréfum á að telja fram á hlutabréfablaðinu RSK 3.19, en þaðan færast fjárhæðir í lið 3.6. Vaxtatekjur á að telja fram á þriðju síðu framtals. Innstæður í erlendum bönkum og vexti af þeim í lið 3.2 og erlend verðbréf og kröfur í lið 3.3. Þá skal telja fram leigutekjur af erlendum fasteignum og söluhagnað af erlendum eignum, öðrum en hlutabréfum, í athugasemdareit í lið 1.4 á forsíðu framtalsins.
Sjá kafla 7.11.3 - Vaxtatekjur og arður erlendis.

Erlendar leigutekjur
Tekjur af leigu af erlendum fasteignum eða lausafjármunum eru færðar í athugasemdareit í lið 1.4 á forsíðu framtalsins. Fjárhæðir eru færðar til tekna í íslenskum krónum. Hafi skattur verið greiddur er hann jafnframt færður inn á framtalið. Mikilvægt er að staðfesting frá viðeigandi erlendu skattyfirvaldi á greiddum skatti fylgi framtali sem viðhengi, séu tekjur frá öðru ríki en Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við.
 
Erlendur söluhagnaður, annar en af hlutabréfum
Tekjur vegna söluhagnaðar af öðru en hlutabréfum skal færa í athugasemdareit í lið 1.4 á forsíðu framtalsins. Fjárhæðir eru færðar til tekna í íslenskum krónum. Hafi skattur verið greiddur er hann jafnframt færður inn á framtalið. Mikilvægt er að staðfesting frá viðeigandi erlendu skattyfirvaldi á greiddum skatti fylgi framtali sem viðhengi, séu tekjurnar frá öðru ríki en Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við. Þá er jafnframt mikilvægt að tilgreina hvað selt var.
 
Laun frá alþjóðastofnunum, sem undanþegin eru skattskyldu samkvæmt samningum, á að telja fram í lið 2.3 á tekjusíðu framtals. Sama á við um staðaruppbót sem greidd er vegna starfa erlendis í þjónustu hins íslenska ríkis eða vegna starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
Ef framteljandi bætir við launum frá alþjóðastofnunum í kafla 2.3 þarf jafnframt að geta um það í athugasemdakafla 1.4 á forsíðu framtalsins.
Sjá kafla 7.11.2 - Laun frá alþjóðastofnunum.

 

Fara efst á síđuna ⇑