3.12 Höfundarréttargreiðslur
Frá og með 1. janúar 2020 teljast greiðslur til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa vegna síðari afnota eftir að höfundarverk hefur verið gert aðgengilegt almenningi til fjármagnstekna, enda sé um að ræða einstaklinga sem bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi.
Skilaskyldum aðilum ber að draga staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af höfundaréttargreiðslum til einstaklinga sem heimilisfastir eru hér á landi og viðkomandi einstaklingur telur greiðslurnar síðan fram í persónuframtali sínu. Á þetta við um greiðslur til allra einstaklinga sem eru rétthafar slíkra greiðslna, þ.e. hvort sem þeir stunda atvinnurekstur eða ekki og hvort sem þeir eru sjálfir höfundar að viðkomandi verkum eða ekki.
Ef höfundaréttargreiðslur ganga til lögaðila eru þær færðar til tekna í rekstri þess félags og ber hvorki að draga af þeim staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987 né staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts samkvæmt lögum nr. 94/1996.
Höfundarréttargreiðslur koma í flestum tilvikum áritaðar í kafla 3.10 á fjármagnstekjuhlið framtals. Fram kemur hvort greiðslan tilheyri eldri eða yngri framteljanda (ef um framtal samskattaðra er að ræða) og einnig kemur fram tegund greiðslunnar t.d. ritverk, tónverk, kvikmyndir eða annað/ótilgreint.
Ef um er að ræða höfundarréttargreiðslur erlendis frá, þá skal setja kennitölu greiðanda sem 9999999999 og færa inn frá hvaða landi greiðslan kemur.