1.10 Dvalartími - Búseta á Íslandi hluta úr ári
Hjá þeim sem flutt hafa til eða frá landinu á árinu 2020 eru dagsetningar áritaðar í kafla 1.6 á vefframtali. Það eru brottflutnings- og/eða komudagar, eins og þeir eru skráðir í þjóðskrá. Kaflinn birtist ekki hjá þeim sem voru búsettir á Íslandi allt árið.
Telji framteljandi dagsetningar rangar þarf hann að leiðrétta þær. Ef áritun vantar, þarf framteljandi að skrá dagsetningar sjálfur.
Fara þarf vandlega yfir komu- og brottfarardagsetningar og staðfesta með þar til gerðu haki í kafla 1.6 að þessar upplýsingar séu réttar.
Þeir sem hafa dvalið tímabundið á Íslandi vegna vinnu á tekjuárinu, án þess að hafa flutt lögheimilið til landsins, þurfa að færa inn komu- og brottfarardag. Velja þarf „Ný lína“ ef um er að ræða fleiri komu- og brottfarardaga.
Þeir aðilar sem eru búsettir á Íslandi (skráð lögheimili hér á landi), en eru fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, eiga ekki að færa í þennan kafla upplýsingar um komu og/eða brottfarartíma.
Lífeyrisþegar búsettir erlendis eiga ekki að færa upplýsingar í þennan kafla, þrátt fyrir tilfallandi dvöl á landinu.
Þeir aðilar sem flytja til eða frá landinu á tekjuárinu og fá áritaðan komu-/brottfarardag, en eru með lífeyrisgreiðslur, greiddar atvinnuleysisbætur eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði utan dvalartíma, þurfa að setja athugasemd um það í kafla 1.4.