Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 1.12.2024 17:35:51


Ξ Valmynd

7.9  Ökutækjastyrkur og frádráttur frá honum

Með ökutækjastyrk er átt við þær greiðslur sem launþegi fær frá launagreiðanda fyrir að nota eigin bifreið í hans þágu. Hér getur bæði verið um að ræða að greidd sé föst mánaðarleg eða árleg fjárhæð eða að greitt sé samkvæmt kílómetragjaldi fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursdagbók eða akstursskýrslu.
 
Frádráttur á móti ökutækjastyrk
Frádrátt á móti ökutækjastyrk má færa ef bifreið launþega hefur sannanlega verið notuð vegna aksturs í þágu vinnuveitanda. Frádrátt má ekki færa hafi ökutækjastyrkur verið greiddur vegna ferða launþegans til og frá vinnu eða vegna annarra nota af bifreiðinni sem teldust til eigin nota hans. Frádráttur má aldrei vera hærri en ökutækjastyrkurinn. Sé kostnaður lægri en ökutækjastyrkur reiknast tekjuskattur og útsvar af mismuninum.
 
Skilyrði að halda akstursdagbók
Allir sem ætla að gera kröfu um frádrátt á móti ökutækjastyrk þurfa að halda akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð hefur verið hver ferð fyrir launagreiðanda, ekin vegalengd og aksturserindi. Akstursdagbækur eða akstursskýrslur er nauðsynlegt að færa reglulega þannig að þær geti verið aðgengilegar fyrir skattyfirvöld sé þess óskað.
  
Staðgreiðsla skatta af ökutækjastyrk
Ökutækjastyrkur sem greiddur er sem föst mánaðarleg eða árleg fjárhæð er staðgreiðsluskyldur. Sé um að ræða ökutækjastyrk, sem greiddur er samkvæmt akstursdagbók fyrir hvern ekinn kílómetra og fjárhæðin er í samræmi við skattmat fjármálaráðherra, má halda þeim ökutækjastyrk utan staðgreiðslu.

Hafi ekki verið tekin staðgreiðsla af ökutækjastyrknum þarf að greiða skatt af mismuninum í álagningu. Hafi hins vegar verið tekin full staðgreiðsla af ökutækjastyrknum getur komið til endurgreiðslu vegna frádráttarbærs kostnaðar.
 
Sérstakt gjald og torfærugjald
Sérstakt gjald er greitt vegna aksturs á vegum fyrir almenna umferð, þar sem ekki er bundið slitlag.
Torfærugjald er greitt vegna aksturs utan vega eða á vegslóðum sem ekki eru færir fólksbílum.

Frádráttarbær kostnaður
Til frádráttar heimilast fjárhæð sem tekur mið af heildarakstri í þágu launagreiðanda og því hvort greitt hefur verið fyrir almennan akstur (almennt gjald), akstur á vegum þar sem ekki er bundið slitlag (sérstakt gjald) eða akstur utan vega eða vegaslóðum sem ekki eru færir fólksbílum (torfærugjald). Gera þarf fullnægjandi grein fyrir því að starfslegar forsendur fyrir greiðslu sérstaks gjalds og torfærugjalds séu uppfylltar. Frádráttur er ákvarðaður miðað við hver heildarakstur hefur verið í þágu launagreiðanda og þá fjárhæð sem gildir á því aksturbili. Frádráttur verður þó aldrei lægri fjárhæð en orðið hefði ef akstur hefði numið hámarksakstri skv. akstursbilinu. Hafi akstur t.d. numið 1.010 km skal miða frádrátt við 108 kr. á hvern km, en þó aldrei lægri fjárhæð en 110.000 kr. (þ.e. 1.000 km margfaldað með 110 kr.).

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑