Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 1.12.2024 18:11:27


Ξ Valmynd

7.8  Umsókn um lækkun á tekjuskattsstofni

Heimild til lækkunar
Í skattalögum er að finna heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni (ívilnun) við tilteknar aðstæður. Umsókn um lækkun ber að skila með skattframtali á eyðublaði RSK 3.05. Á því koma fram upplýsingar um hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn. Skilyrði fyrir lækkun er m.a. að lögð séu fram nauðsynleg gögn sem sýna fram á útlagðan kostnað. Lækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni er heimilt þegar þannig er ástatt:

  • Veikindi, slys eða ellihrörleiki sem hafa í för með sér veruleg útgjöld.
  • Vegna mannsláts er veitt ívilnun vegna útfararkostnaðar.
  • Veikindi eða fötlun barns sem hefur í för með sér veruleg útgjöld.
  • Framfærsla vandamanna, t.d. foreldra.
  • Framfærsla námsmanns/ungmennis. 
  • Eignatjón sem ekki fæst bætt.
  • Tapaðar kröfur eða fallnar ábyrgðir sem ekki tengjast atvinnurekstri. 

Móttaka umsóknar
Umsókn um ívilnun skal senda með skattframtal á eyðublaðinu RSK 3.05, nema hvað umsókn um lækkun vegna framfærslu námsmanna er fyllt út í kafla 1.3 á forsíðu skattframtals. Tilskilin gögn, s.s. læknisvottorð og gögn um kostnað skulu fylgja umsókninni.

Á eyðublaðinu kemur fram hvaða gagna er krafist og á vefframtali er hægt að hengja skönnuð skjöl við umsóknina (eða senda þau á pappír). Fylgi þessi gögn ekki, er umsóknin móttekin með fyrirvara um að þau berist ríkisskattstjóra í framtalsfresti. Að öðrum kosti er umsókn synjað sem ófullnægjandi.

Fallist á ívilnun
Ef fallist er á umsókn um ívilnun við frumálagningu er lækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni birt á álagningarseðli. Sé fallist á hana síðar berst svar í formi úrskurðar og eftir atvikum fylgir yfirlit yfir breytta skattstofna.

Synjun um ívilnun
Berist umbeðin nauðsynleg gögn ekki er umsókninni sjálfkrafa synjað sem ófullnægjandi.

Sé umsókn synjað í álagningu, vegna ófullnægjandi gagna, getur umsækjandi bætt úr ágöllum í kærufresti til ríkisskattstjóra eða eftir atvikum, með nýrri beiðni síðar sem þá er afgreidd sem skatterindi samkvæmt 101. gr. tekjuskattslaga.


Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑