Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 19.4.2024 17:14:41


Ξ Valmynd

3.2  Ráðstöfun inn á óverðtryggt lán

Ef umsækjandi velur að greiða viðbótariðgjöld inn á veðlán sem ekki er vísitölutryggt (óverðtryggt) þá er honum heimilt að ráðstafa þeim bæði inn á afborgun og höfuðstól lánsins. Þetta má þó einungis gera þannig að á fyrstu tólf mánuðum af tíu ára tímabilinu má ráðstafa allri fjárhæðinni inn á afborganir en eftir það lækkar heimil greiðsla inn á afborganir um sem nemur 10 prósentustigum af viðbótariðgjöldum á hverju ári. Þetta þýðir að á ári tvö af tíu ára tímabilinu geta 90% af iðgjöldunum farið inn á afborganir en 10% eiga að fara inn á höfuðstól og svo koll af kolli alltaf miðað við ár í senn.

Dæmi:
Maður sækir um ráðstöfun á viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á óverðtryggt lán en nýtti sér ekki heimild til að útborgunar í tengslum við kaup á fyrstu íbúð. Viðbótariðgjöld nema 40.000 kr. á fyrsta ári slíkrar ráðstöfunar. Afborgun af láninu nemur 50.000 kr. á mánuði. Á fyrstu tólf mánuðunum frá umsóknarmánuði er heimilt að greiða öll iðgjöldin inn á afborganir af láninu. Miðað við óbreytta fjárhæð viðbótariðgjalda er á næstu tólf mánuðum heimilt að greiða 36.000 kr. inn á afborganir af láninu og á næstu tólf mánuðum þar á eftir 32.000 kr. og svo koll af kolli. Á síðustu tólf mánuðunum er heimilt að greiða 4.000 kr. inn á afborganir en 36.000 kr. inn á höfuðstól lánsins.

Hafi umsækjandi um ráðstöfun viðbótariðgjalda inn á óverðtryggt lán áður ráðstafað iðgjöldum í tengslum við kaup á fyrstu íbúð þá er tekið tillit til þess tíma sem úttektin tók til við ákvörðun á því hlutfalli af iðgjöldunum sem heimilt er að greiða inn á afborganir.

Dæmi:
Maður tók út viðbótariðgjöld vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2017 til 30. júní 2018, eða í tólf mánuði. Hann óskaði síðan eftir því að ráðstafa iðgjöldum til greiðslu inn á verðtryggt veðlán. Sú ráðstöfun tók til viðbótariðgjalda vegna launagreiðslna frá júlí 2018 þangað til hann óskaði eftir því að greiðslur færu inn á óverðtryggt veðlán. Þegar þetta gerðist hafði hann tekið út og ráðstafað iðgjöldum vegna samtals tveggja ára, eða í 24 mánuði. Af þeim heildartíma sem heimildin tekur til stóðu þá eftir átta ár, eða 96 mánuðir. Á fyrstu tólf mánuðunum eftir breytingu á því láni sem maðurinn vill greiða inn á er heimilt að verja 80% viðbótariðgjaldanna, að teknu tilliti til hámarsfjárhæða, til að greiða inn á afborganir af óverðtryggða láninu. Á næstu tólf mánuðum þar á eftir má greiða 70% iðgjaldanna inn á afborganir og svo koll af kolli.

 

Fara efst á síðuna ⇑