Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 6.5.2024 09:27:11


Ξ Valmynd

7.20  Frádráttur vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði - RSK 3.22

Gerð er grein fyrir frádrætti vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði á eyðublaði RSK 3.22.

Við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 heimilast til frádráttar tekjuskatts­stofni 50% af þeirri fjárhæð sem greidd er vegna vinnu án virðisaukaskatts sem unnin er á árunum 2010 og 2011 vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota. Heimild þessi tekur einnig til viðhalds og endurbóta á útleigðu íbúðarhúsnæði utan atvinnu­rekstrar. Hámark frádráttar er 200.000 kr. hjá einstaklingi. Hjá hjónum og samsköttuðum er hámarksfrádráttur 300.000 kr. og kemur til lækkunar hjá þeim sem hefur hærri tekjuskatts­stofn í kafla 2.7 á skattframtali.
 
Frádráttur er háður því skilyrði að skilað hafi verið á fullgildum reikningum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af sama tilefni. Sækja þurfti um frádrátt á tekjuskattsstofni samhliða umsókn um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, í síðasta lagi 31. janúar árið 2011 vegna tekjuársins 2010. Sækja þarf um frádráttinn vegna tekjuársins 2011 í síðasta lagi 31. janúar árið 2012.
 
 
Um útfyllingu eyðublaðsins:
 
Í dálk A skal færa inn dagsetningu umsóknar um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, en skil á umsókninni ásamt skilum á fullgildum greiddum reikningum fyrir 1. febrúar 2012, vegna ársins 2011, er forsenda fyrir frádrætti frá tekjuskattsstofni.
 
Í dálk B skal færa kennitölu umsækjanda. Hér skal því færa kennitölu framteljanda eða maka, hafi þeir sótt um endurgreiðsluna á virðisaukaskatti vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði. Hafi annar aðili sótt um endurgreiðsluna fyrir hönd margra aðila, svo sem ef húsfélag vegna sameiginlegra framkvæmda, skal hér færa inn kennitölu húsfélagsins eða þess aðila sem sótti um endurgreiðsluna.
 
Í dálk C skal færa greiðslur vegna vinnu verktaka sem virðisaukaskattur var endurgreiddur vegna. Hér skal aðeins færa vinnuna skv. reikningi en ekki heildarfjárhæð reikningsins. Hér skal því ekki færa annan kostnað skv. reikningi, svo sem vegna efnis.
 
Í dálk D skal færa eignarhluta framteljanda. Ef framkvæmdir voru vegna einkaeignar framteljanda, t.d. vegna einbýlishúss, skal færa hér 100%. Hafi verið um sameiginlegar framkvæmdir að ræða, svo sem hjá húsfélagi, skal hér færa eignarhlut framteljanda í þeirri eign sem unnið var við.
 
Í dálk E skal færa kostnaðarhlut framteljanda í krónum. 
 
Kostnaður, þar sem ekki er innheimtur virðisaukaskattur.
Þegar keypt er vinna af verktaka, sem ekki er virðisaukaskattsskyldur, þarf aðeins að fylla út dálka C, D og E og senda jafnframt fullgilda reikninga til ríkisskattstjóra til staðfestingar. Þetta á við þegar umfang rekstrar verktakans er undir þeim mörkum sem gilda um virðisaukaskattsskyldu og virðisaukaskattur því ekki innheimtur af þeim sökum.

 

Fara efst á síðuna ⇑