FRAMTALSLEIÐBEININGAR 2017
3.5 Hlutabréf og stofnfjárbréf sparisjóða
Í þennan kafla færast upplýsingar um nafnverð, arð og staðgreiðslu vegna innlendra hlutabréfa og stofnfjárbréfa í sparisjóðum sjálfkrafa af eyðublaði RSK 3.19 Hlutabréfaeign – kaup og sala (sjá kafla 7.6). Framteljandi færir því allar upplýsingar um hlutabréf og stofnfjárbréf á það eyðublað en getur ekki skráð beint í þennan kafla framtalsins. Eyðublaðið er fimmskipt. Í fyrsta lagi öll hlutabréf í innlendum félögum sem ekki sæta sérstakri skattlagningu. Í öðru lagi sérstök hlutabréf sem keypt voru á árunum 1990-1996 í innlendum hlutafélögum sem uppfylltu tiltekin skilyrði og ríkisskattstjóri hafði staðfest, í þriðja lagi hlutabréf sem fengin hafa verið á undirverði og eru með frestaðri tekjuskattskvöð, í fjórða lagi hlutabréf sem veitt hafa sérstakan skattafslátt og í fimmta lagi erlend hlutabréf. Öll innlend hlutabréf, bæði almenn og sérstök, sem framteljandi átti í árslok og/eða hafði arðstekjur af á tekjuárinu færast í þennan kafla, þ.e. fjárhæðir úr dálkum 13-15 af eyðublaðinu RSK 3.19.
RSK 3.19 Hlutabréfaeign - kaup og sala
Farið er inn í skráningarmyndirnar með því á smella á hnappinn >> sem er hægra megin í kennitölureitnum. Síðan er farið á milli þrepa með því að smella á Áfram>> eða <<.
Hafi framteljandi skilað hlutabréfayfirliti RSK 3.19 í fyrra, þá eru nú árituð inn á blaðið þau hlutabréf sem til voru í árslok skv. þeim skilum. Búið er að skrá kennitölu í dálk 1 og nafn félags í dálk 2, sem og nafnverð í ársbyrjun í dálk 3 og stofnverð (kaupverð) í dálk 4.
Hafi hlutafélag skilað hlutafjármiðum til ríkiskattstjóra eru einnig áritaðar upplýsingar af þeim miðum um arð og staðgreiðslu. Hafi framteljandi fengið greiddan arð á árinu 2016 er búið að árita hann í dálk 13 og staðgreiðslu af arði í dálk 14.
Allar breytingar á hlutabréfaeign á árinu 2016 (t.d. kaup eða sölu hlutabréfa) þarf síðan að skrá inn á blaðið, í þrepum 2 og 3.
Hlutabréf í nokkrum stórum almenningshlutafélögum teljast verðlaus þótt félögunum hafi ekki formlega verið slitið, m.a. hlutabréf í öllum gömlu viðskiptabönkunum og stofnfjárbréf í stærstu sparisjóðunum. Þessi bréf færast sjálfkrafa á verðinu 0 í kafla 3.5 á framtali þótt nafnverð og kaupverð séu skráð á eyðublaðið RSK 3.19.
Hafi framteljandi ekki skilað hlutabréfayfirliti RSK 3.19 áður, þá gildir eftirfarandi:
Nafnverð hlutabréfa er ekki áritað á eyðublaðið. Framteljandi þarf að færa nafnverð hlutabréfa sem hann átti í ársbyrjun 2016 inn í skráningarmynd (þrep 1). Hafi hlutabréf verið keypt í félaginu á árinu eru þau skráð í þrep 2 en seld hlutabréf í þrep 3.
Þegar búið er að skrá þessar upplýsingar reiknar eyðublaðið sjálfkrafa nafnverð hlutabréfa sem framteljandi átti í árslok 2016. Það er birt í dálki 15 og á að stemma við nafnverð sem tilgreint er á hlutafjármiða (hlutafjármiðar eru sýndir á sundurliðunarblaði).