FRAMTALSLEIÐBEININGAR 2017
1.8.7.3 Lán skv. upplýsingum frá ýmsum lánastofnunum
Upplýsingar vegna lána frá ýmsum lánastofnunum, svo sem lífeyrissjóðum, eru oft ekki áritaðar á skattframtal (ef óljóst er hvort um lán vegna íbúðarkaupa er að ræða, eða önnur lán). Þess í stað eru þær birtar í sérstökum kafla á sundurliðunarblaði. Þaðan er mögulegt að flytja upplýsingarnar vélrænt á framtal. Hjá hjónum og samsköttuðu sambýlisfólk eru upplýsingarnar birtar í sérstökum kafla fyrir hvort þeirra.
Fyrir hvert lán þarf að taka afstöðu til þess hvort flytja á upplýsingarnar á skattframtal eða ekki.
Hægt er að velja um hvort flytja á upplýsingarnar í kafla 5.2 eða 5.5 á framtali. Valið ræðst af því hvort um er að ræða lán sem tengjast öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota eða ekki.
Ef valið er að flytja upplýsingarnar á framtal, er sú aðgerð framkvæmd næst þegar síðan er vistuð. Síða er vistuð þegar önnur síða er valin eða smellt er á vista/geyma framtalið í valmyndinni. Allar leiðréttingar eftir flutning verða að eiga sér stað á framtalinu sjálfu.
Ef valið er að sleppa, þ.e. að flytja upplýsingarnar ekki á framtalið, er hægt að breyta þeirri ákvörðun síðar.
Í dálkinum vinstra megin koma fram upplýsingar sem fluttar eru á framtal sé sú aðgerð valin. Í hægri dálkinum koma fram aðra upplýsingar um lánið sem sendar voru frá lánastofnuninni. Þar kemur einnig fram dagsetning síðustu aðgerðar, þ.e. þegar upplýsingarnar voru fluttar á framtal eða þegar tekin var ákvörðun um að flytja þær ekki.