7.30 Upplýsingagjöf frá almannaheillafélögum
Lögaðilar (félög, sjóðir og stofnanir) sem hafa fengið samþykkta umsókn um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins eru almennt óhagnaðardrifnir rekstraraðilar (e. non-profit organization) sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur fyrst og fremst starfsemi sem að verulegu leyti byggir á vinnu sjálfboðaliða og með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi.
Framangreindir lögaðilar eiga, auk hefðbundinnar útfyllingar á skattframtali, að gera grein fyrir mótteknum gjöfum og framlögum ásamt ráðstöfun þeirra í sérstökum kafla á skattframtali „Upplýsingagjöf frá almannaheillafélögum“. Einnig upplýsingar um heildareignir í árslok.
Um útfyllingu einstakra reita:
Reitur 1055 Móttekin framlög vegna almannaheillastarfsemi frá einstaklingum
Heildarfjárhæð framlaga án gagngjalds sem mótteknar voru frá einstaklingum á rekstrarárinu 2024. Hafi lögaðili verið skráður í fyrsta sinn á almannaheillaskrá á rekstrarárinu 2024, þá ber hér aðeins að gera grein fyrir heildarfjárhæð framlaga og styrkja einstaklinga talið frá og með umsóknardegi til lok árs.
Reitur 1056 Móttekin framlög vegna almannaheillastarfsemi frá lögaðilum
Heildarfjárhæð framlaga án gagngjalds sem mótteknar voru frá öðrum lögaðilum á rekstrarárinu 2024. Hafi lögaðili verið skráður í fyrsta sinn á almannaheillaskrá rekstrarárinu 2024, þá ber hér aðeins að gera grein fyrir heildarfjárhæð framlaga og styrkja frá öðrum lögaðilum talið frá og með umsóknardegi til lok árs.
Samtala fjárhæða í reitum 1055 og 1056 ætti almennt að vera jöfn heildarfjárhæð framlaga samkvæmt árlegum gagnaskilum félagsins á almannaheillamiðum (fyrir 20. janúar ár hvert), sem m.a. er grundvöllur áritaðs frádráttar á framtal gefenda.
Reitur 3750 Ráðstöfun styrkja/framlaga til almannaheilla
Hér skal gera grein fyrir ráðstöfun styrkja/framlaga beint til þeirra almannaheillamálefna sem starfsemi lögaðilans snýr að. Hér er um að ræða ráðstöfun framlaga til kaupa á vörum og tækjum og launakostnaður vegna beinnar vinnu við almannaheillamál o.þ.h. Einnig beinir peningalegir styrkir, s.s. vegna náms, kaupa á búnaði vegna lækninga o.þ.h.
Reitur 3760 Önnur notkun styrkja/framlaga til almannaheilla (vörukaup, tækjakaup, rekstur á starfsemi)
Ráðstöfun styrkja/framlaga inn á við hjá lögaðilanum vegna almannaheillastarfseminnar. Hér er um að ræða kostnað vegna skrifstofuhalds, þ.m.t. launakostnað, kaup á rekstrartækjum, reksturs húsnæðis og annars innri rekstrarkostnaðar.
Reitur 5210 Allir veltufjármunir í árslok (sjóður, bankainnstæður, verðbréf o.þ.h.)
Heildarfjárhæð veltufjármuna í árslok, s.s. sjóður, bankainnistæður, verðbréf, inneignir hjá greiðslukortafyrirtækjum o.þ.h.
Reitur 5220 Allar aðrar eignir í árslok
Heildarvirði annarra bókfærðra eigna í árslok, s.s. virði fasteigna, bifreiða, framleiðslutækja, innréttinga, tölvubúnaðar o.þ.h.