Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 18.1.2025 12:12:37


Ξ Valmynd

7.13.1  Hverjir eiga rétt á skattalegri heimilisfesti?

Þeir sem dveljast erlendis við nám geta sótt um að fá að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti, hafi þeir verið búsettir hér síðustu 5 árin áður en nám erlendis hófst. Nám verður að hefjast innan þriggja mánaða frá flutningi. Dvelji maki námsmannsins eða börn hans eldri en 16 ára einnig erlendis og dvöl þeirra er bein afleiðing af námi hans, geta þau einnig sótt um að halda hér á landi skattalegri heimilisfesti. Óvígð sambúð er lögð að jöfnu við hjúskap að því tilskildu að uppfyllt séu skilyrði skattalaga um samsköttun.
 
Nám erlendis sem uppfyllir skilyrði fyrir skattalegri heimilisfesti.
Þau skilyrði sem námið þarf að uppfylla eru eftirfarandi:
  • að stundað sé reglulegt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á framhalds- eða háskólastigi
  • að námið sé ætlað sem aðalstarf
  • að námstími sé eigi skemmri en 6 mánuðir eða sem svarar til 624 klst. á ári, þó að undanskildu skiptinámi, sbr. eftirfarandi:
Til náms í þessu sambandi telst starfsþjálfun, sérhæfing eða öflun sérfræðiréttinda, enda séu skilyrði þau sem sett eru að öðru leyti uppfyllt. Skiptinám við erlenda háskóla telst til náms, sé nemandi skráður við íslenskan háskóla, þótt skiptinámið sé styttra en 6 mánuði.
 
Nám í grunnskólum, menntaskólum eða sambærilegum menntastofnunum telst ekki til náms í þessu sambandi nema nám að loknum grunnskóla veiti formleg starfsréttindi eða heimild til að bera starfsheiti.

Fjarnám við íslenskan háskóla skapar ekki rétt til skattalegrar heimilisfesti þrátt fyrir búsetu erlendis.

 

Fara efst á síðuna ⇑