Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 18.1.2025 12:05:49


Ξ Valmynd

7.11.1  Launatekjur erlendis

Hafi framteljandi aflað launatekna erlendis, á sama tíma og hann var heimilisfastur hér á landi, ber honum að gera grein fyrir þeim tekjum í lið 2.8 á framtali. Hér er átt við hvers konar launatekjur, starfstengdar greiðslur og hlunnindi sem taldar eru upp í kafla 2 á framtali. Lífeyrisgreiðslur erlendis frá ber einnig að telja fram í lið 2.8. Tilgreina skal í hvaða landi teknanna er aflað og fjárhæð í erlendri mynt, sem og greidda skatta erlendis. Fjárhæðina skal umreikna í íslenskar krónur á meðalgengi þess tíma þegar teknanna var aflað og færa í reit 319.

Upplýsingar um gengi gjaldmiðla má fá á heimasíðu Seðlabankans, sedlabanki.is

Hafi tekna verið aflað í ríki sem í gildi er tvísköttunarsamningur, er farið með þær tekjur samkvæmt ákvæðum þess samnings. Mismunandi er eftir samningum hvaða aðferð er beitt til að komast hjá tvísköttun og e.t.v. eru tekjurnar skattskyldar á Íslandi að fullu. Sé um að ræða tekjur frá ríki sem ekki er tvísköttunarsamningur við þarf að leggja fram gögn sem sýna greiddan skatt erlendis.

Ef um er að ræða erlendar tekjur sem falla undir "Almenn laun" eða "Tekjur frá opinberum aðilum" þarf jafnframt að veita upplýsingar um hvar vinnuframlagið var innt af hendi (erlendis og/eða á Íslandi), skiptingu teknanna eftir því hvort þeirra var aflað vegna vinnu erlendis eða á Íslandi og eftir atvikum hvort um greiðslu í íslenskan lífeyrissjóð vegna teknanna var að ræða.

 

Fara efst á síðuna ⇑