Leiđbeiningar um rafrćn skil, sótt 29.4.2024 10:54:01


Ξ Valmynd

4.1.19  Hvađ er átt viđ međ eigin notum?

Eigin not á íbúðarhúsnæði eru mælikvarði á það hvort fyrir hendi er réttur til útreiknings á vaxtabótum. Með eigin notum í þessu samhengi er átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Sérstakar tímabundnar aðstæður, s.s. nám, veikindi eða atvinnuþarfir, sem valda því að eigandi íbúðarhúsnæðis getur ekki sjálfur nýtt það til íbúðar, leiða þó ekki til þess að hann missi sjálfkrafa rétt til vaxtabóta. Með tímabundnum aðstæðum er átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota. Almennt er miðað við að tímabundnar aðstæður vari ekki lengur en þrjú ár, sem þó er heimilt að framlengja í fimm ár þegar sérstaklega stendur á. Það ber undir eiganda að sýna fram á aðstæður af þessu tagi.
 
Kjósi eigandi að leigja íbúðarhúsnæði sitt út til lengri eða skemmri tíma í stað þess að nýta húsnæðið sjálfur, t.d. þar sem slík ráðstöfun er hagkvæm í fjárhagslegu tilliti, eru skilyrði til vaxtabóta almennt ekki fyrir hendi, enda er þá ekki um það að ræða að eigandi geti ekki sjálfur nýtt húsnæðið til íbúðar.

Ef ekki er um að ræða eigin not á íbúðarhúsnæði eru lán vegna öflunar þess ekki færð í kafla 5.2 í skattframtali.


 

Fara efst á síđuna ⇑