Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 12.5.2024 14:34:19


Ξ Valmynd

5.2  Lán vegna íbúðarhúsnæðis

Vaxtagjöld af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota mynda stofn til vaxtabóta. Hér er átt við lán vegna:
  • kaupa á íbúðarhúsnæði
  • byggingar íbúðarhúsnæðis
  • verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði (á eingöngu við um lán frá Íbúðalánasjóði)
  • greiðsluerfiðleika eða endurfjármögnunar
  • kaupa á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð.
Skammtímalán - Lán til lengri tíma
Vaxtagjöld vegna lána til skemmri tíma en tveggja ára mynda stofn til vaxtabóta en einungis
  • á næstu fjórum árum (tekjuárum) talið frá og með kaupári og er þá miðað við dagsetningu kaupsamnings, eða
  • á næstu sjö árum talið frá og með því ári þegar bygging er hafin eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.
Vaxtagjöld vegna fasteignaveðskulda og skulda með sjálfskuldarábyrgð við lánastofnanir sem upphaflega voru til tveggja ára eða lengri tíma eru ekki háð þessum tímamörkum.
 
 
Leiðbeiningar við útfyllingu einstakra reita í lið 5.2
Gera skal grein fyrir staðsetningu íbúðarhúsnæðis. Í reitinn kaupár skal færa hvenær húsnæðið var keypt. Húsbyggjandi skal færa hér hvenær bygging hófst. Síðan skal sundurliða upplýsingar um einstök lán í merkta reiti sbr. eftirfarandi skýringar:
 
 
1 Lánveitandi/lánsnúmer/hlutfall (%). Hér skal tilgreina lánveitanda og númer láns. Hafi einungis hluti lánsins verið vegna íbúðarhúsnæðis skal tilgreina það hér. Í reitnum hlutfall (%) skal gera grein fyrir hversu stór hluti af láninu var vegna íbúðarhúsnæðis. Sjá nánari útskýringar í kafla 5.2.2 um endurfjármögnun lána vegna íbúðarkaupa og í dæmi um útreikning á hlutföllun láns í kafla 8.4.3. Þó lán sé hlutfallað skal ávallt færa heildargreiðslur af láninu í reiti 5, 6, 7 og 8, en vaxtagjöld og eftirstöðvar skulda skal síðan færa hlutfallslega í dálkana tvo, lengst til hægri.
 
 
2 Lántökudagur. Hér skal greina frá dagsetningu lántöku, þ.e. hvenær lánið var upphaflega tekið. Alltaf skal færa upphaflega lántökudagsetningu, jafnt þó um yfirtekið lán sé að ræða.
 
 
3 Lánstími. Hér skal færa lánstíma talið frá upphaflegu lántökuári.
 
 
4 Yfirtökudagur. Hér skal greina frá dagsetningu yfirtöku ef um yfirtekið lán er að ræða.
 
 
5 Heildargreiðslur ársins. Hér skal færa gjaldfallnar afborganir, verðbætur, vexti og árlegan og tímabundinn fastakostnað. Með vöxtum teljast einnig dráttarvextir ársins en greiddir dráttarvextir vegna fyrri ára teljast ekki til vaxtagjalda ársins og færast ekki hér.
 
 
6 Afborgun af nafnverði. Í þennan reit færist nafnverð afborgana sem gjaldféllu á árinu. Kvittanir bera með sér upplýsingar um nafnverð afborgana, en þegar verðtryggð lán eru yfirtekin þá þarf að gera leiðréttingar. Finna þarf nýja afborgun í hendi þess sem yfirtekur lánið. Við útreikning á nýrri afborgun er notuð sú aðferð að deila í vísitölu yfirtökumánaðar með upphaflegri vísitölu. Þannig er fundinn verðhækkunarstuðull og með honum er margfölduð sú afborgun af nafnverði sem kemur fram á hverjum greiðsluseðli. Þegar um yfirtöku á erlendum lánum er að ræða er ný afborgun fundin með því að margfalda fjárhæð afborgunar í erlendri mynt með gengi á yfirtökudegi. Samanlagðar afborganir ársins eru síðan færðar í reit 6. Á rsk.is er reiknivél þar sem hægt er að fá útreikning á yfirteknum verðtryggðum lánum (sjá hér).
Erlend lán
Þegar fundin er afborgun af erlendum lánum er fjárhæð afborgunar í erlendri mynt margfölduð með genginu eins og það var á lántökudegi. Þegar erlend lán eru yfirtekin þá skal margfalda afborgunina með því gengi sem er í gildi á yfirtökudegi. Samanlagðar afborganir ársins eru síðan færðar í reit 6.
 
 
7 Afföll. Afföll vegna sölu á skuldabréfum geta myndað stofn til vaxtabóta ef útgefandi skuldabréfsins hefur notað andvirðið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Afföll reiknast sem stofn til vaxtabóta með hlutfallslegri fjárhæð ár hvert eftir afborgunartíma bréfsins. Afföll vegna sölu á skuldabréfum eða húsbréfum sem seljandi hefur fengið í hendur sem greiðslu á fasteign koma ekki til álita sem stofn til vaxtabóta.
 

8 Lántökukostnaður. Hér skal færa lántökukostnað, þ.e. lántökugjöld vegna nýrra og yfirtekinna lána, kostnað vegna skuldbreytinga, stimpilgjöld, þóknanir og þinglýsingarkostnað af lánum, en hann myndar stofn til vaxtabóta. Uppgreiðslugjald telst til lántökukostnaðar í þessu sambandi. Þinglýsingarkostnaður og stimpilgjöld af kaupsamningi eða afsali teljast þó ekki til vaxtagjalda. Umsýslugjald sem kaupandi greiðir til fasteignasala telst ekki til vaxtagjalda. Gæta verður þess að lántökukostnaður er ekki áritaður þó aðrar upplýsingar um lán séu það og verður framteljandi því að bæta honum við.
 
 
9 Vaxtagjöld. Í þennan dálk færist samtala fjárhæða í reitum 5, 7 og 8 og frá þeim dregin fjárhæð í reit 6. Ef aðeins hluti lánsins var vegna íbúðarhúsnæðis, skal þó lækka vaxtagjöldin í samræmi við tilgreint hlutfall í reit 1. Í dálk dálk fyrir vaxtagjöld skal því færa (5-6+7+8) x hlutfall (%).
 
 
10 Eftirstöðvar skulda. Í þennan dálk færast eftirstöðvar skulda eins og þær eru í árslok. Eftirstöðvar verðtryggðra skulda færast framreiknaðar miðað við breytingu á vísitölu frá gjalddagamánuði til janúar 2010. Eftirstöðvar erlendra lána eru fundnar með því að margfalda eftirstöðvar með gengi gjaldmiðilsins í árslok. Töflur með margföldunarstuðlum er að finna í köflum 8.2.1-8.2.4. Eftirstöðvar óverðtryggðra skulda færast eins og þær eru eftir síðustu afborgun ársins. Niðurstöðutalan úr þessum dálki færist í reit 45. Ef aðeins hluti lánsins var vegna íbúðarhúsnæðis, skal þó lækka eftirstöðvarnar í samræmi við tilgreint hlutfall í reit 1.
 
Bent skal á að upplýsingar um þann hluta lánsins sem ekki tilheyrir íbúðarhúsnæði til eigin nota skal færa í kafla 5.5.

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑