7.29 Vistvænar eignir á eignaskrá RSK 4.01
Vert er að vekja athygli á sérstökum reglum sem gilda um vistvæn ökutæki og vistvænar eignir (eða vistvænar (umhverfisvænar) fjárfestingar) í rekstri.
Í eignaskránni RSK 4.01 með framtali eru tveir hak-reitir, til að tilgreina hvort um vistvænt ökutæki er að ræða eða vistvæna eign. NB. Þessir hak-reitir eru óháðir hvor öðrum, þannig að það er ekki sjálfgefið að vistvænt ökutæki uppfylli endilega skilyrði um að vera vistvæn eign!
Vistvænt ökutæki:
Samkvæmt II. kafla laga nr. 154/2019 er heimil full fyrning (90% fyrning) á kaupári (niður í niðurlagsverð) á skráningarskyldum vistvænum ökutækjum (eingöngu knúið metani, metanóli, rafmagni eða vetni og sé að öllu leyti nýtt í skattskyldri starfsemi framteljanda) keyptum árin 2020-2023. Í framtali 2022 er því hak-reitur fyrir "Vistvænt ökutæki" eingöngu virkur fyrir eignir í fyrningarflokkum 01 og 05 sem keyptar eru á árinu 2021.
Vistvæn eign skv. lögum nr. 33/2021 (bráðabirgðaákvæði LXX í skattalögum nr. 90/2003):
Samkvæmt lögum nr. 33/2021 verður leyfilegt í framtali 2022-2026 sérstakt fyrningarálag á stofnverð á allar „vistvænar“ (umhverfisvænar) eignir keyptar á árunum 2021-2025 (vistvænar fjárfestingar). Fyrningarálagið er fyrnanlegt með jöfnum fjárhæðum á þremur árum frá og með rekstrarárinu 2023 (framtal 2024), en er hvorki heimilt að færa niður í heild eða að hluta á móti skattskyldum söluhagnaði. Nánari útlistun á því hvaða eignir teljast vistvænar í þessu sambandi er að finna í lögum nr. 33/2021. Í framtali 2022 er því hak-reitur fyrir "Vistvænar eignir" eingöngu virkur fyrir eignir sem keyptar eru á árinu 2021.
Færa skal í athugasemdasvæðið á eignaskránni rökstuðning um hvernig skilyrði fyrningarálags teljast uppfyllt varðandi hverja eign, í samræmi við lög nr. 33/2021.
Sjá nánar í reglugerð nr. 565/2022 um skattalegt fyrningarálag á grænar eignir.