FRAMTALSLEIÐBEININGAR 2021
5.2.2 Endurfjármögnun lána vegna íbúðakaupa
Lán sem tekið er til uppgreiðslu eldri lána, sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis, myndar stofn til vaxtabóta á sama hátt og eldri lánin að því marki sem höfuðstóll nýja lánsins svarar til uppgreiðslu á eldri lánum.
Nýtt lán myndar þó ekki hærri stofn til vaxtabóta en sem nemur eftirstöðvum eldri lána, að viðbættum lántökukostnaði (lántökugjaldi, stimpilgjaldi og þinglýsingargjaldi). Sé nýja lánið hærra en sem þessu nemur takmarkast réttur til vaxtabóta við það hlutfall sem uppreiknaðar eftirstöðvar, að viðbættum lántökukostnaði, eru af höfuðstól nýja lánsins. Vaxtagjöld, þ.m.t. lántökukostnaður, mynda stofn til vaxtabóta í sama hlutfalli.
Hafi lán ekki eingöngu verið tekið vegna fjármögnunar íbúðarhúsnæðis (vaxtabótahlutfall er lægra en 100%) skal tilgreina hlutfallið í reitnum "Hlutfall". Athugið þó að færa alltaf heildargreiðslur af láninu í reiti 5, 6 7 og 8. Einnig eru heildareftirstöðvar lánsins færðar í dálkinn fyrir eftirstöðvar skulda, lengst til hægri. Ef færð er inn hlutfallstala fyrir lán, þá birtast reitir vegna hlutföllunar, þ.e. sá hluti vaxtagjalda og eftirstöðva sem ekki tilheyra íbúðarkaupum til eigin nota. Hinn hluti vaxtagjalda og eftirstöðva sem ekki tilheyra íbúðarkaupum færist sjálfkrafa í kafla 5.5.
Uppsafnaðar áfallnar verðbætur á þau lán sem greidd eru upp, umfram ákvæði skuldabréfanna, teljast ekki fremur en verið hefur til vaxtagjalda í þessu sambandi.
Dæmi um útreikning á vaxtabótahlutfalli nýs láns er að finna í kafla 8.4.3.