Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 22.12.2024 10:39:40


Ξ Valmynd

8.2  Skuldir í árslok

Til að reikna út eftirstöðvar verðtryggðra skulda í árslok 2019 þarf að hafa við höndina kvittun fyrir síðustu afborgun á árinu. Ef þar koma fram eftirstöðvar með áföllnum verðbótum eftir greiðslu skal margfalda þá fjárhæð með margföldunarstuðli er gildir fyrir þann gjalddagamánuð skv. eftirfarandi töflum. Tafla 3 skv. lánskjaravísitölu og tafla 4 skv. neysluverðsvísitölu.

Ef aðeins koma fram eftirstöðvar án áfallinna verðbóta eftir greiðslu verður að margfalda þá fjárhæð með vísitölu fyrir janúar 2020 og deila með vísitölu lántökumánaðarins.
Sjá einnig dæmi 2 í kafla 8.2.2 um útreikning eftirstöðva verðtryggðra lána.
 
Verðgildi lána Íbúðalánasjóðs
Til að reikna út eftirstöðvar skuldar við Íbúðalánasjóð með áföllnum verðbótum á höfuðstól, verður skuldari að hafa við höndina síðustu kvittun fyrir afborgun af láni því sem um er að ræða. Ef lánið er úr Byggingarsjóði ríkisins, eldra en frá 1. júlí 1974, ber kvittunin með sér raunverulegar eftirstöðvar lánsins og er það skráð í reit sem merktur er „Eftirstöðvar nafnverðs eftir greiðslu". Sama gildir um lán úr Byggingarsjóði verkamanna, sem eldri eru en frá 1. júlí 1980. Lán, sem veitt hafa verið til nýbygginga og kaupa á eldri íbúðum úr Byggingasjóði ríkisins frá 1. júlí 1974 til júní 1979, eru að hluta verðtryggð skv. byggingarvísitölu, þ.e. 30%, 40% eða 60%. Til að reikna út eftirstöðvar þessara lána skal nota töflu 1, sbr. dæmi 1.
 
Margfalda skal eftirstöðvar lánsins án verðbóta, sem fram koma á kvittun fyrir afborgun á síðasta gjalddaga ársins í reitnum „Eftirstöðvar nafnverðs eftir greiðslu", með margföldunarstuðli lántökumánaðar, sbr. reit „Útgáfudagur /1. vaxtadagur”.
 
Lög nr. 63 um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga voru samþykkt á Alþingi 12. júní 1985. Greiðslujöfnunin nær sjálfkrafa til allra sem fengið höfðu fullverðtryggð lán úr báðum byggingarsjóðunum eftir gildistöku laganna. Einstaklingum, sem fengið höfðu fullverðtryggð lán úr sjóðunum fyrir gildistöku laganna, var gefinn kostur á að sækja um greiðslujöfnun.
 
Lán úr Byggingarsjóði ríkisins frá 1. júlí 1979 til mars 1982 til nýbygginga og eldri íbúða, eru verðtryggð skv. fullri byggingarvísitölu og skal nota töflu 2 til að reikna út eftirstöðvar þeirra. Ef lánið er ekki með greiðslujöfnun skal margfalda fjárhæð, sem fram kemur í reitnum „Eftirstöðvar með verðbótum eftir greiðslu", á kvittun fyrir greiðslu síðustu afborgunar á árinu, með margföldunarstuðli þess gjalddagamánaðar, sbr. dæmi 2. Ef lánið er með greiðslujöfnun skal margfalda fjárhæð, sem fram kemur í reitnum „Skuld samtals með verðbótum", með sama margföldunarstuðli.

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑