Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 29.3.2024 13:19:05


Ξ Valmynd

7.8.1.1  Sértækur kostnaður í kafla A

Heyrnartæki
Almennt er ekki veitt ívilnun vegna kaupa á heyrnartækjum. Ef um er að ræða kostnað sem er umfram venjulegan slíkan kostnað og af sérstökum heilsufarslegum ástæðum getur það þó komið til álita. Er þá að jafnaði miðað við þann kostnað sem er umfram almennan kostnað vegna heyrnartækja, sem telst vera um 150.000 kr. (í bæði eyru). Ívilnun er ekki ákvörðuð þegar kostnaður er eingöngu hærri vegna þess að viðkomandi velur að kaupa dýrara tæki en almennt gerist í sambærilegum tilvikum. Ívilnun kemur að jafnaði ekki til álita nema ef allur heilbrigðiskostnaður umsækjanda nær a.m.k. 140.000 kr. á ári.

Gleraugu
Almennt er ekki veitt ívilnun vegna kaupa á gleraugum. Ef um er að ræða kostnað sem er umfram venjulegan kostnað við kaup á gleraugum og af sérstökum heilsufarslegum ástæðum getur það þó komið til álita. Er þá að jafnaði miðað við þann kostnað sem er umfram almennan kostnað vegna gleraugnakaupa. Þannig er ekki tekið tillit til kostnaðar sem eingöngu er tilkominn vegna þess að viðkomandi velur að kaupa dýrari gleraugu en almennt gerist í sambærilegum tilvikum. Miðað er við að venjulegur kostnaður vegna kaupa á gleraugum sé um 100.000 kr. Ívilnun kemur að jafnaði ekki til álita nema ef allur heilbrigðiskostnaður umsækjanda nær a.m.k. 140.000 kr. á ári.

Tannlækningar
Almennt er ekki veitt ívilnun vegna tannviðgerða. Ef um er að ræða tannholdssjúkdóma, aðgerðir í munnholi og tannskemmdir sem af þeim sjúkdómum stafa, kemur þó til álita að taka tillit til þess kostnaðar við ákvörðun á ívilnun. Ívilnun kemur að jafnaði ekki til álita nema ef allur heilbrigðiskostnaður umsækjanda nær a.m.k. 140.000 kr. á ári.
Að jafnaði er ekki veitt ívilnun vegna kostnaðar við tannréttingar. Ef um er að ræða atvik sem tilkomin eru vegna slysa eða sjúkdóma og ekki fást bætt úr almannatryggingakerfinu eða frá vátryggingarfélögum kemur til skoðunar hvort forsenda er til að ákvarða ívilnun og er þá höfð hliðsjón af helmingi þess kostnaðar sem féll á umsækjanda.
Í báðum tilvikum þarf greinargerð frá tannlækni að fylgja umsókn.

Augnlækningar
Ekki er veitt ívilnun vegna kostnaðar við laseraðgerðir eða augnsteinaaðgerðir. Þegar augnsteinaaðgerðir eru gerðar vegna augnsjúkdóma þá eru þær niðurgreiddar af hinu opinbera og sá kostnaður sem sjúklingurinn ber er meðtalinn í almennum lækniskostnaði og kemur eftir atvikum með í útreikningi á ívilnun af þeim sökum.
Ef um er að ræða augnsjúkdóma kemur til álita að taka tillit til þess kostnaðar við ákvörðun á ívilnun. Ívilnun kemur að jafnaði ekki til álita nema ef allur heilbrigðiskostnaður umsækjanda nær a.m.k. 140.000 kr. á ári.
Í því tilviki þarf greinargerð frá augnlækni að fylgja umsókn.

Bensínstyrkur (uppbót vegna reksturs bifreiðar)
Þar sem bensínstyrkur, eða uppbót vegna reksturs bifreiðar, frá almannatryggingarkerfinu er ákvarðaður með læknisfræðilegum rökum og mati á aðstæðum er almennt fallist á ívilnun á móti slíkum greiðslum. Gengið er út frá því að við þessar aðstæður sé um að ræða aukin útgjöld vegna notkunar á bifreið en almennt gerist. Við ákvörðun á ívilnun er að jafnaði miðað við helming af styrkfjárhæðinni.

 

Fara efst á síðuna ⇑