Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 13.5.2024 08:09:12


Ξ Valmynd

3.7  Leigutekjur

Hafi framteljandi tekjur af útleigu fasteigna eða eignaréttinda, sem ekki falla undir atvinnurekstur, skal hann færa brúttóleigutekjur vegna útleigunnar án frádráttar. Heildarleigutekjur, sem eru lægri en sem nemur hlunnindamati samkvæmt skattmati, skulu taldar fram á því mati, sjá reglur um húsnæðishlunnindi í kafla 2.2.4. Sama á við þegar húsnæði er látið í té án endurgjalds.
 
Útleiga á atvinnurekstrarhúsnæði telst til atvinnurekstrar en útleiga á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar nema fyrningargrunnur þess í árslok nemi a.m.k. kr. 29.324.700 hjá einstaklingi eða kr. 58.649.400 hjá hjónum.
 
Leigutekjur, frádráttur - leiga á móti leigu
Hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði og á sama tíma leigugjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, er heimilt að draga leigugjöldin frá leigutekjum. Frádráttur þessi leyfist þó eingöngu á móti leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er leigt út tímabundið.
 
Á framtal sem leigutekjur færist jákvæður mismunur í reit 510, þ.e. leigutekjur þegar frá þeim hefur verið dregin greidd leiga. Neikvæður mismunur færist ekki á framtal.

NB. Á framtali 2011 og síðar er leigutekjum skipt í tvo reiti, 510 og 511, eftir því hvort leigutekjurnar stafa af útleigu íbúðarhúsnæðis eða annarra eigna.  Ástæða þessa er sú að aðeins 70% leigutekna af íbúðarhúsnæði eru skattlagðar.  ATHUGIÐ AÐ Í REIT 510 SKAL FÆRA HEILDARLEIGUTEKJUR VEGNA ÍBÚÐARHÚSNÆÐIS, EN EKKI 70% LEIGUTEKNANNA!

 

Fara efst á síðuna ⇑