9.3 Greiðsluúrræði
Ég var í vanskilum með húsnæðislánin mín um áramótin – hvernig á að telja vextina og verðbæturnar?
Svar: Til vaxtagjalda við útreikning vaxtabóta má aðeins telja fram þau vaxtagjöld sem greidd voru á árinu. Þetta er breyting frá fyrri árum þegar öll gjaldfallin vaxtagjöld mynduðu stofn til vaxtabóta, þ.m.t. vaxtagjöld í vanskilum. Nú eru það aðeins þau vaxtagjöld sem voru sannanlega greidd sem vaxtabætur reiknast af.
Ég varð að frysta hluta af afborgunum af húsnæðisláninu mínu – hvernig tel ég það fram?
Svar: Þann hluta frestaðra greiðslna sem voru vextir og verðbætur og bætt var við höfuðstól lánsins, áttu að telja með í vaxtagjöldum til útreiknings vaxtabóta. Eftirstöðvar lánsins, að viðbættum frestuðum greiðslum, færast sem skuld í árslok. Í þessu sambandi er litið á hækkun höfuðstólsins sem greiðslu af hálfu skuldara.
Ég sagði mig ekki frá greiðslujöfnun sem ákveðin var samkvæmt lögum – hvaða áhrif hefur það?
Svar: Greiðslujöfnun sem fram fór í nóvember 2009 var almenn aðgerð sem beitt var á öll verðtryggð lán sem tryggð voru með veði í fasteignum. Í þessum tilvikum er reiknað út greiðslumark og ef gjaldfallin fjárhæð er umfram það þá er greiðslu mismunarins frestað. Sú fjárhæð sem frestað er greiðslu á er færð í jöfnunarreikning sem telst hluti af höfuðstóli lánsins. Þú mátt færa þá fjárhæð sem frestað er greiðslu á, að svo miklu leyti sem hún er vextir og verðbætur, sem vaxtagjöld ársins 2014 og sá hluti kemur því til útreiknings á vaxtabótum.
Ég gekk í gegnum greiðsluaðlögun á árinu 2020 – hvaða áhrif hefur það á skattskýrsluna mína?
Svar: Þú mátt telja greidda vexti og verðbætur með vaxtagjöldum til útreiknings vaxtabóta. Að öðru leyti hefur þetta engin áhrif á meðan greiðsluaðlögunartíminn stendur en gæti haft einhver áhrif í lok þess tímabils allt eftir því hverjar lyktir verða.
Bankinn minn bauð mér að breyta verðtryggðu húsnæðisláni og bílaláni í óverðtryggt lán – skiptir þetta máli í skattskýrslunni minni?
Svar: Já þetta getur skipt máli. Þú mátt bara færa greidd vaxtagjöld og verðbætur til vaxtagjalda til útreiknings vaxtabóta. Þó aðeins það sem var gjaldfallið en ekki það sem uppreiknað var umfram lánsskilmálana. Á sama hátt skal færa greidd vaxtagjöld og verðbætur af bílalánum í lið 5.5 í framtali. Rétt reiknuð vaxtagjöld ættu að koma fram á sundurliðunarblaði sem fylgir framtali, en þar eru upplýsingar frá lánastofnunum. Mörg lánanna eru einnig árituð á vefframtal.