Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 22.12.2024 05:32:15


Ξ Valmynd

5.2  Lán vegna íbúðarhúsnæðis

Vaxtagjöld af lánum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota mynda stofn til vaxtabóta. Hér er átt við lán vegna:
  • kaupa á íbúðarhúsnæði
  • byggingar íbúðarhúsnæðis
  • verulegra endurbóta á íbúðarhúsnæði (á eingöngu við um lán frá Íbúðalánasjóði)
  • greiðsluerfiðleika og endurfjármögnunar
  • kaupa á búseturétti/eignarhlut í kaupleiguíbúð.
Skammtímalán - Lán til lengri tíma
Vaxtagjöld vegna lána til skemmri tíma en tveggja ára mynda stofn til vaxtabóta en einungis:
  • á næstu fjórum árum (tekjuárum) talið frá og með kaupári og er þá miðað við dagsetningu kaupsamnings, eða
  • á næstu sjö árum talið frá og með því ári þegar bygging er hafin eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.
Vaxtagjöld vegna fasteignaveðskulda og skulda með sjálfskuldarábyrgð við lánastofnanir sem upphaflega voru til tveggja ára eða lengri tíma eru ekki háð þessum tímamörkum.
 
Leiðbeiningar við útfyllingu einstakra reita í lið 5.2
Í þennan kafla skal færa sundurliðaðar upplýsingar um íbúðarlán eins og formið segir til um. Gera skal grein fyrir byggingar- eða kaupári og staðsetningu íbúðarhúsnæðisins. Síðan skal sundurliða upplýsingar um einstök lán í númeraða reiti, sem hér segir:
 
1 Lánveitandi / kennitala lánveitanda / lánsnúmer / hlutfall (%). Hér skal tilgreina lánveitanda, kennitölu hans og númer láns. Hafi einungis hluti lánsins verið vegna íbúðarhúsnæðis skal skrá hversu stór hluti (%) af láninu var vegna íbúðarhúsnæðis í reitinn Hlutfall.
Þó lán sé hlutfallað skal færa heildargreiðslur í reiti 5 og 6. Í vefframtali hlutfallast vaxtagjöld og eftirstöðvar sjálfkrafa í dálkum 9 og 10.
 
Sjá nánari útskýringar í kafla 5.2.2 um endurfjármögnun lána vegna íbúðarkaupa og í dæmi um útreikning á hlutföllun láns í kafla 8.4.3.

Ef lán skiptist á tvo eða fleiri kaupendur skal hver færa sinn hlut á sitt framtal. Reitinn hlutfall (%) á ekki að nota til að skipta láni milli kaupenda.
 
2 Lántökudagur. Hér skal greina frá dagsetningu lántöku, þ.e. hvenær lánið var upphaflega tekið. Alltaf skal færa upphaflega lántökudagsetningu, jafnvel þótt um yfirtekið lán sé að ræða.
 
3 Lánstími. Hér skal færa lánstíma talið frá upphaflegu lántökuári.
 
4 Yfirtökudagur. Hér skal greina frá dagsetningu yfirtöku ef um yfirtekið lán er að ræða.
 
5 Heildargreiðslur ársins. Hér skal færa gjaldfallnar og greiddar afborganir, verðbætur, vexti og árlegan og tímabundinn fastakostnað. Með vöxtum teljast einnig dráttarvextir sem greiddir voru á árinu.
 
6 Afborgun af nafnverði. Í þennan reit færist nafnverð gjaldfallinna afborgana sem greiddar voru á árinu. Kvittanir bera með sér upplýsingar um nafnverð afborgana, nema þegar verðtryggð lán eru yfirtekin. Þá þarf að finna nýja afborgun í hendi þess sem yfirtekur lánið. Aðferðin til að reikna út nýja afborgun fer eftir því hvort um er að ræða annúitetslán, lán með jöfnum afborgunum eða erlent lán.
 
  • Sé lánið með jöfnum afborgunum, t.d. lífeyrissjóðslán, er ný afborgun fundin með því að deila fjölda afborgana sem eftir eru í lánsfjárhæðina eins og hún er við yfirtöku með áföllnum verðbótum. Þannig er fundið nafnverð hverrar afborgunar í hendi kaupanda. Samanlagðar afborganir ársins færast í reit 6.
  • Sé lánið annúitetslán (jafngreiðslulán), t.d. frá Íbúðalánasjóði, er ný afborgun reiknuð með því að deila í vísitölu yfirtökumánaðar með upphaflegri vísitölu. Þannig er fundinn verðhækkunarstuðull og með honum er margfölduð sú afborgun af nafnverði sem kemur fram á hverjum greiðsluseðli. Samanlagðar afborganir ársins færast í reit 6.
  • Sé lánið erlent er fjárhæð afborgunar í erlendri mynt margfölduð með sölugenginu eins og það var á lántökudegi. Hafi erlent lán verið yfirtekið er afborgun margfölduð með sölugengi á yfirtökudegi. Samanlagðar afborganir ársins færast í reit 6.
Vísitölur koma fram á greiðsluskjölum, en jafnframt má finna upplýsingar um þær á vef Hagstofu Íslands, http://www.hagstofa.is/.
 
7 Afföll. Afföll vegna sölu á skuldabréfum geta myndað stofn til vaxtabóta ef útgefandi skuldabréfsins hefur notað andvirðið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Afföll reiknast sem stofn til vaxtabóta með hlutfallslegri fjárhæð ár hvert eftir afborgunartíma bréfsins. Afföll vegna sölu á skuldabréfum eða húsbréfum sem seljandi hefur fengið í hendur sem greiðslu á fasteign koma ekki til álita sem stofn til vaxtabóta.
 
8 Lántökukostnaður. Hér skal færa lántökugjöld vegna nýrra og yfirtekinna lána, kostnað vegna skuldbreytinga, stimpilgjöld, þóknanir og þinglýsingarkostnað af lánum. Uppgreiðslugjald telst til lántökukostnaðar í þessu sambandi. Lántökukostnaður er ekki áritaður á framtal og verður framteljandi því að bæta honum við.
Ekki má telja til vaxtagjalda þinglýsingarkostnað og stimpilgjöld af kaupsamningi eða afsali og heldur ekki umsýslugjald sem kaupandi greiðir til fasteignasala.
 
9 Vaxtagjöld. Í þennan dálk færast vaxtagjöld ársins af hverju láni, sem er samtala fjárhæða í reitum 5, 7 og 8 að frádreginni afborgun í reit 6. Ef aðeins hluti lánsins var vegna íbúðarhúsnæðis þarf að lækka vaxtagjöldin til samræmis við hlutfallstöluna (%) í reitnum Hlutfall (sá reikningur er sjálfvirkur í vefframtali).
Samtala vaxtagjalda allra lána færist í reit 87 og myndar stofn til útreiknings vaxtabóta
 
10 Eftirstöðvar skulda. Í þennan dálk færast eftirstöðvar skulda eins og þær eru í árslok 2019. Flest íbúðarlán eru árituð á framtal og þá með réttum eftirstöðvum í árslok. Samtala eftirstöðva færist í reit 45. Ef aðeins hluti lánsins er vegna íbúðarhúsnæðis hlutfallast eftirstöðvar á sama hátt og vaxtagjöld. Vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta geta að hámarki orðið 7% af eftirstöðvum skulda.
Þurfi framteljandi sjálfur að fremreikna eftirstöðvar til ársloka eru eftirstöðvar verðtryggðra skulda framreiknaðar miðað við breytingu á vísitölu frá gjalddagamánuði til janúar 2020. Eftirstöðvar erlendra lána eru fundnar með því að margfalda eftirstöðvar með sölugengi gjaldmiðilsins í árslok. Töflur með margföldunarstuðlum er að finna í köflum 8.2.1-8.2.4. Eftirstöðvar óverðtryggðra skulda færast eins og þær eru eftir síðustu afborgun ársins.
 
 
Upplýsingar um þann hluta lánsins sem ekki tilheyrir íbúðarhúsnæði til eigin nota skal færa í kafla 5.5 (sú skipting gerist sjálfkrafa í vefframtali).

 

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑