Leiđbeiningar um rafrćn skil, sótt 22.12.2024 11:41:32


Ξ Valmynd

2.2.4  Önnur hlunnindi

Önnur hlunnindi

Í reit 135 færist samtala annarra hlunninda. Á það t.d. við um fatnað, fæði, ökutæki önnur en bifreiðir, fríar ferðir, áskriftir fjölmiðla, tryggingar, síma, tölvur, svo og framlög og gjafir.
Húsnæðishlunnindi skal færa í reit 136.
 
Vélknúin ökutæki

Færa skal launþega til tekna umráð hans yfir öðrum vélknúnum ökutækjum launagreiðanda en bifreiðum, s.s. mótorhjólum, torfæruhjólum, vélsleðum, fjórhjólum og öðrum sambærilegum tækjum. Sé um slík umráð að ræða teljast þau ætíð full og ótakmörkuð.

Hafi launagreiðandi vélknúið ökutæki á leigu eða til láns og láti launþega það í té til umráða skulu þau metin launþeganum til tekna á sama hátt og ef tækið væri í eigu launagreiðandans, sbr. það sem hér fer á eftir.

Greiði launamaður launagreiðanda sínum sannanlega fyrir afnot tækisins koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu.

Við ákvörðun á fjárhæð hlunninda skal miða við aldur og verð tækis að meðtöldum virðisaukaskatti. Jafnframt þarf að taka tillit til þess hvort tækið er í eigu launagreiðanda eða hvort hann hefur það t.d. á rekstrarleigu. Niðurfærsla á verði til útreiknings á hlunnindunum reiknast alltaf af því verði sem byggt var á árið áður.

Tæki í eigu launagreiðanda.
Ársumráð tækis skulu miðast við 28% af upphaflegu kaupverði í hendi eiganda. Heimilt er að færa verð tækisins niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á hlunnindum verði aldrei lægra en 50% af kaupverði þess.

Tæki sem er ekki í eigu launagreiðanda.
Ársumráð slíks tækis skulu miðast við 28% af verði þess samkvæmt verðlista viðkomandi söluaðila þegar launagreiðandi fær umráð yfir tækinu, t.d. þann dag sem tækið er tekið á leigu. Heimilt er að færa verð tækisins niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir að launagreiðandi fær umráð yfir því en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á hlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði þess.

Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað tækis sem hann hefur til umráða skal lækka hlutfall hlunninda um 6% af hlunnindamatsverði þess, sbr. að framan. Með rekstrarkostnaði í þessu sambandi er átt við eldsneytiskostnað, smurningu, þrif o.þ.h.


Einkaflugvélar
Færa skal til tekna 220.000 kr. á hvern byrjaðan flugtíma vegna ferða í einkaþágu (20.000 kr. ef um er að ræða litlar eins hreyfils flugvélar).

Fatahlunnindi
Fatahlunnindi skal telja til tekna á kostnaðarverði. Undanþeginn er einkennisfatnaður og nauðsynlegur öryggis- og hlífðarfatnaður sem starfsmenn fá til afnota og er ætlað að nota við störf sín.  Það sama á við um fatnað sem er auðkenndur eða merktur launagreiðanda, og einkum er nýttur vegna starfa í þágu hans.
 
Ekki skal reikna launþega til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað sem launagreiðandi afhendir honum til afnota við störf hans, þ.m.t. er sá öryggis- og hlífðarfatnaður sem launagreiðendum er skylt skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds.
 
Fæðishlunnindi
Fæðishlunnindi færast til tekna í samræmi við hlunnindamat ríkisskattstjóra.
Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fæði á lægra verði en skattmat ríkisskattstjóra segir til um skal telja mismuninn til tekna. Sérhver önnur fæðishlunnindi, sem látin eru launamanni og fjölskyldu hans í té endurgjaldslaust, ber að telja til tekna á kostnaðarverði.
Fæði, sem launagreiðandi lætur starfsmanni og fjölskyldu hans í té endurgjaldslaust, skal metið starfsmanninum til tekna á árinu 2019 sem hér segir:
 
Krónur
Morgunverður
348
Hádegisverður eða kvöldverður
521
Fullt fæði á dag
1.390
 

Húsnæðishlunnindi
Ef launagreiðandi lætur starfsmanni sínum í té endurgjaldslaus afnot íbúðarhúsnæðis skulu þau metin starfsmanni til tekna á árinu 2019 sem hér segir:
Árleg afnot skulu metin til tekna sem jafngildi 5% af fasteignamati íbúðarhúsnæðisins, þ.m.t. bílskúrs og lóðar. Sú fjárhæð er margfölduð með gildistölu þess svæðis þar sem húsnæðið er sbr. eftirfarandi:
 Gildistala
Staðsetning
1,0
Reykjavík (þar með talið Kjalarnes), Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður
0,80    
Grindavík, Suðurnesjabær (Sandgerði og Garður), Reykjanesbær, Vogar, Akranes, Akureyri, Árborg, Hveragerði, Ölfus
0,70
Önnur sveitarfélög
 
Endurgjaldslausa orkunotkun (rafmagn og hita) skal telja til tekna á kostnaðarverði. Fylgi starfi launamanns kvöð um búsetu í húsnæði sem launagreiðandi lætur honum í té, er ríkisskattstjóra heimilt að lækka mat húsnæðishlunninda við álagningu opinberra gjalda ef launþegi telst ekki nýta húsnæðið að fullu. Íbúðarhúsnæði allt að 150 m2 að viðbættum 5 m2 fyrir hvern íbúa umfram 6 telst fullnýtt.

Eigi skal meta til tekna afnot af húsnæði í verbúðum eða vinnubúðum þar sem launamaður dvelur um takmarkaðan tíma í þjónustu launagreiðanda.
 
Hafi launþegi endurgjaldslaus afnot af orlofshúsnæði frá launagreiðanda sínum í fleiri en 10 daga á ári skal telja launþeganum til tekna með 3.500 kr. fyrir hvern dag sem umfram er. Það sama gildir um slík afnot fjölskyldumeðlims starfsmanns. Með orlofshúsnæði er í þessu sambandi átt við sumarbústaði og annað það húsnæði sem ætlað er til slíkrar notkunar, þ.m.t. íbúðir í þéttbýli.
 
Ekki skal telja til tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við leigu á orlofshúsnæði eða með öðrum hætti til greiðslu á orlofsdvöl, að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 55.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvéfengjanlega reikninga fyrir greiðslu á kostnaði vegna orlofsdvalar þessarar.
 
Lán frá launagreiðanda
Sá sem fær vaxtalaust lán hjá launagreiðanda sínum eða fyrir milligöngu hans skal telja sér vaxtahagræðið til tekna. Telja skal til skattskyldra tekna mismun á vöxtum af lánum sem fengin eru hjá launagreiðanda, eða fyrir milligöngu hans, ef þeir eru lægri en þeir vextir sem birtir eru af Seðlabanka Íslands. Miða skal við stöðu láns í byrjun hvers mánaðar og almenna vexti þess mánaðar eins og það er birt í töflu um „bankavextir og dráttarvextir“ á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Eftir atvikum skal miða við almenna vexti af verðtryggðum eða óverðtryggðum lánum. Sama á við um greiðslufresti og afborganir af kaupum á hlutabréfum eða öðrum eignum.

 

 

Fara efst á síđuna ⇑