Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 11.11.2024 09:46:08


Ξ Valmynd

8.3.3  Útreikningur vaxtabóta

Vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta er sú fjárhæð sem lægst er af a), b) eða c).
 a) Vaxtagjöld samkvæmt reit 87 og/eða 166.
 b) 7% af eftirstöðvum skulda samkvæmt reit 41, 45 eða 167.
 c) Hámark vaxtagjalda. Hjá einhleypingi kr. 800.000. Hjá einstæðu foreldri kr. 1.000.000. Hjá hjónum og sambúðarfólki kr. 1.200.000.
 
Frá vaxtagjöldum skv. framansögðu dragast 8,5% af tekjustofni* (samanlögðum tekjustofni hjóna). Mismunurinn er reiknaðar vaxtabætur, sem geta mest orðið kr. 400.000 hjá einhleypingi, kr. 500.000 hjá einstæðu foreldri og kr. 600.000 hjá hjónum.
 
* Tekjustofn til útreiknings vaxtabóta er frábrugðinn tekjuskattsstofni að því leyti að allar fjármagnstekjur eru meðtaldar en sérstök útgreiðsla séreignarsparnaðar ekki, þar sem hún skerðir ekki vaxtabætur. Laun frá alþjóðastofnunum sem ekki eru skattlögð koma inn í tekjustofn til útreiknings á vaxtabótum.
 
Dæmi:
Samanlagðar tekjur hjóna, þ.m.t. fjármagnstekjur kr.

3.000.000

Skuldir v/íbúðar  kr.

5.000.000

Vaxtagjöld skv. reit 87 á framtali  kr.

400.000

Í þessu dæmi takmarkast vaxtagjöld við 7% af skuldum þar sem sú fjárhæð er lægri en vaxtagjöld í reit 87
kr.

350.000

Frá dragast 8,5% af tekjustofni kr.

255.000

Reiknaðar vaxtabætur  kr.

95.000


Bæturnar skiptast jafnt á milli hjónanna og verða kr. 47.500 hjá hvoru.
 
Skerðing vegna eigna:
Reiknaðar vaxtabætur, eins og þær eru hér að ofan (kr. 95.000), skerðast ef eignir að frádregnum skuldum fara yfir tiltekin mörk og falla niður við mörk sem eru 60% hærri. Skerðing vegna eigna er sem hér segir:
 
  Skerðing hefst Vaxtabætur falla niður
hjá einhleypingi/einstæðu foreldri kr.  4.000.000 kr.   6.400.000
hjá hjónum/sambúðarfólki kr.  6.500.000 kr. 10.400.000
Ef nettóeign hjónanna í dæminu hér að ofan, allar eignir að frádregnum öllum skuldum, er kr. 8.000.000, er skerðing vegna eigna reiknuð þannig:

(  8.000.000 - 6.500.000)
(10.400.000 - 6.500.000)
         1.500.000___
            3.900.000
=38,46%


Reiknaðar vaxtabætur voru               kr.

95.000

38,46% skerðing v/eigna  kr. 

42.306

Vaxtabætur verða kr. 

52.694

Bæturnar skiptast jafnt milli hjóna og verða kr. 26.347 hjá hvoru.
 
Fyrirframgreiðsla vaxtabóta
Fyrirframgreiðsla vaxtabóta er greidd ársfjórðungslega, fjórum mánuðum eftir lok hvers ársfjórðungs. Fyrir fyrsta ársfjórðung 1. ágúst, fyrir annan ársfjórðung 1. nóvember, fyrir þriðja ársfjórðung 1. febrúar og fyrir fjórða ársfjórðung 1. maí. Við ákvörðun fyrirframgreiðslu er miðað við greidda og gjaldfallna vexti í hverjum ársfjórðungi en þó ekki hærri fjárhæð en fjórðung hámarks vaxtagjalda miðað við heilt ár. Skerðing vegna tekna er áætluð miðað við fjórðung launatekna síðustu 12 mánaða samkvæmt staðgreiðsluskrá og upplýsingar um eignir samkvæmt síðasta framtali.

 

Fara efst á síðuna ⇑