Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 22.11.2024 18:29:46


Ξ Valmynd

7.7  Sala/innlausn verðbréfa

Þeir sem seldu eða innleystu verðbréf á árinu 2018 skulu gera grein fyrir því á eyðublaðinu Sala/innlausn verðbréfa RSK 3.15. Fylla þarf út eyðublaðið eins og form þess segir til um; upplýsingar um kaupanda og seljanda, hvaða bréf er verið að selja, kaupdag, söludag, stofnverð og sölu- eða innlausnarverð.
 
Vextir, verðbætur og afföll, svo og gengishagnaður af kröfum í erlendri mynt og gengishækkun hlutdeildarskírteina mynda stofn til fjármagnstekjuskatts. Í skýringum hér að neðan er stofnverð verðbréfa skilgreint og útskýrt nánar hvernig það er fundið út.  Í kafla 8.1.5. er tafla yfir verðmæti markaðsverðbréfa 1. janúar 1997 sem nota skal til útreiknings á vaxtatekjum af verðbréfum sem voru í eigu framteljanda fyrir 1. janúar 1997.
  • Ef selt/innleyst er verðbréf sem framteljandi eignaðist fyrir 1. janúar 1997 verður að finna stofnverð (upphafsverð) bréfsins 1. janúar 1997 þar sem vaxtatekjur sem til féllu fyrir þann tíma eru ekki skattlagðar. Vaxtatekjur ársins eru fundnar með því að draga stofnverðið frá söluverðinu. Söluþóknanir má draga frá söluverði.
  • Ef selt/innleyst er verðbréf sem framteljandi eignaðist eftir 1. janúar 1997 eru vaxtatekjur fundnar með því að draga kaupverðið frá söluverðinu. Söluþóknanir má draga frá söluverði.
Hafi seljandi verið búinn að fá afborganir af bréfinu á árinu 2018 skal færa þær vaxtatekjur sem þá fengust greiddar í reit 1 á eyðublaðinu.

Spariskírteini ríkissjóðs og önnur kúlubréf
 
Hafi framteljandi selt/innleyst verðbréf, sem eru aðeins með einum gjalddaga í lok lánstíma, svo sem spariskírteini ríkissjóðs og önnur kúlubréf, eru þau viðskipti færð í síðari kafla eyðublaðsins. Þá getur þurft að skipta vaxtatekjum á fleiri en eitt skattþrep. Það á við um bréf sem seljandi eignaðist þegar fjármagnstekjuskattur var annar en 22%, þannig að hluti vaxtateknanna féll til meðan skattur á fjármagnstekjur var 10%, 15%, 18% eða 20%. Vaxtatekjur samtals koma eftir sem áður í reit 5.
 

Um útfyllingu einstakra reita:

Reitur 1 - Áður fengnir vextir á árinu

Hafi afborgunarbréf verið selt skal færa í þennan reit þær vaxtatekjur sem innheimtar hafa verið á gjalddögum fyrr á árinu. Sjá einnig um Stofnverð seldra afborgunarbréfa.

Reitur 2 - Söluverð

Með söluverði er átt við sölu- eða innlausnarandvirði bréfsins að frádregnum sölukostnaði og/eða umsýsluþóknun vegna sölunnar.

Reitur 3 - Stofnverð

Þegar reiknaðar eru út vaxtatekjur af seldum verðbréfum þarf að færa stofnverð í reit 3. Stofnverð getur verið tvenns konar, eftir því hvers konar bréf er verið að selja eða innleysa. Ef selt er bréf sem framteljandi eignaðist á árinu 1997 eða síðar er stofnverðið kaupverð bréfsins. Ef selt er bréf sem framteljandi eignaðist 1996 eða fyrr er stofnverðið upphafsverð.

Kaupverð. Með kaupverði er átt við kaupverð bréfsins að viðbættri umsýsluþóknun vegna kaupanna ef um hana er að ræða. Kaupverðið er stofnverð bréfa sem framteljandi hefur eignast á árinu 1997 eða síðar.

Kaupverð skuldaviðurkenninga, sem eru hluti af greiðslu söluandvirðis samkvæmt kaupsamningi, skal skráð samkvæmt ákvæðum í kaupsamningnum sem liggja að baki viðskiptunum.

Upphafsverð. Með upphafsverði er átt við verðgildi sem notað er til útreiknings á vaxtatekjum af bréfum sem framteljandi hefur eignast 1996 eða fyrr. Stuðlar til útreiknings á upphafsverði markaðsverðbréfa er að finna hér á eftir. Annars vegar gengi hlutdeildarskírteina 31.12.1996 og hins vegar stuðlar til útreiknings á upphafsverði annarra markaðsverðbréfa.

Stofnverð seldra afborgunarbréfa. Ef afborgunarbréf er selt fyrir lok lánstímans skal færa sem stofnverð eftirstöðvar eins og þær voru, með verðbótum, eftir síðustu­ afborgun á árinu. Vaxtatekjur sem þegar hafa verið innheimtar með afborgunum fyrr á árinu færast í reit 1, Áður fengnir vextir á árinu.

Reitur 4 - Staðgreiðsla af vaxtatekjum ársins

Hafi banki, sparisjóður, verðbréfafyrirtæki eða annar skilaskyldur aðili annast sölu eða innlausn verðbréfsins, skal færa hér þá fjárhæð sem hann hélt eftir vegna staðgreiðslu skatts á vaxtatekjur.

Reitur 5 - Vaxtatekjur

Sem vaxtatekjur færist mismunurinn á söluverði (2) og stofnverði (3). Af seldum afborgunabréfum bætast við áður fengnir vextir á árinu (1).

Reitir 6, 7, 8 og 9 - Lotun vaxtatekna

Ef spariskírteini ríkissjóðs eða önnur kúlubréf, sem keypt voru þegar fjármagnstekjuskattur var annar en 22%, voru seld/innleyst á árinu þarf að tilgreina þann hluta vaxtateknanna sem skattleggja á í 10%, 15%, 18% eða 20% skattþrepum í reitum 6, 7, 8 og 9. Þessir reitir innihalda "þar af" fjárhæðir, en reitur 5 inniheldur vaxtatekjur samtals.

Tekjur af afleiðusamningum

Hagnaður af uppgjöri afleiðusamninga fellur undir reglur um söluhagnað eigna. Er því að jafnaði heimilt að færa tap af viðskiptum með afleiður frá hagnaði af slíkum viðskiptum á sama ári. Afleiðusamningar sem gerðir voru upp á árinu 2018 ber að færa í sérstakan kafla á RSK 3.15. Hagnaður umfram tap af uppgjöri afleiðusamninga færist í reit 522 á þriðju síðu framtals.

Dæmi um útfyllingu
 
Dæmi #1:
Árni keypti skuldabréf af Birni Björnssyni á kr. 682.000 þann 1. febrúar 2018. Hann seldi Verðbréfasölunni h.f. skuldabréfið á kr. 725.000 þann 1. desember 2018 og greiddi 500 krónur í söluþóknun.

Söluverðið að frádreginni söluþóknun, eða kr. 724.500, færist í reit 2 og kaupverðið, kr. 682.000, í reit 3. Mismunurinn, kr. 42.500, eru vaxtatekjur Árna af bréfinu og færast í reit 5. Verðbréfasalan h.f. hélt eftir 22% af vaxtatekjunum vegna staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, eða kr. 9.350 og færist sú fjárhæð í reit 4.
 
Dæmi #2
Í lok árs 2018 innleysti Árni verðbréf með einum gjalddaga (kúlubréf), sem hann keypti í ársbyrjun 2007, en bréfið var verðtryggt og bar 3% vexti. Nafnverð bréfsins var 650.000 krónur en hann keypti það með 10% afföllum og greiddi fyrir það 585.000 krónur. Innlausnarverðið, að frádreginni söluþóknun, var 1.116.800. krónur.

Vaxtatekjur af bréfinu eru mismunur á söluverði og kaupverði og námu þær 531.800 krónum, sem færast í reit 5. Þar sem hluti vaxtateknanna féll til meðan annað skatthlutfall var í gildi þarf að tilgreina þann hluta vaxtateknanna sem tilheyrir öðrum þrepum í reitum 6, 7, 8 og 9, en hjá flestum er þessi skipting árituð á vefframtal. Affallatekjur eru hlutfallaðar eftir dagafjölda.

Þannig færast 106.949 kr. í reit 6, 22.593 kr. í reit 7, 44.818 kr. í reit 8 og 313.972 kr. í reit 9. Flutningur á framtal er sjálfvirkur í vefframtali. Fjárhæðir sem tilheyra 10%, 15%, 18% og 20% skattþrepi eru ekki fluttar á framtal, en stofnar vegna þessara skattþrepa koma fram í samtölureitum neðst á eyðublaði RSK 3.15 og sjást einnig neðst á fjármagnstekjuhlið vefframtalsins.

 

 

Fara efst á síðuna ⇑