Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 31.10.2024 23:57:02


Ξ Valmynd

7.24  Ný sambúð - RSK 3.27

Fólk sem skráði sig í sambúð á tekjuárinu fær * (stjörnu) í fjölskyldumerkingu á forsíðu framtals. Við afgreiðslu framtals hjá RSK koma fjórar fjölskyldumerkingar til greina. Annars vegar einhleypingur (1) eða einstætt foreldri (2) og hins vegar sambúðarfólk, sérskattað (7) eða samskattað (6).

Stjörnu-merktir framteljendur verða að fylla út eyðublaðið RSK 3.27 Ný sambúð, svo ákvarða megi rétta fjölskyldustöðu við álagningu.

Upphaf sambúðar
Á eyðublaðið er skráð upphafsdagsetning sambúðar samkvæmt Þjóðskrá. Sé hún ekki rétt getur framteljandi skráð leiðrétta dagsetningu og þarf þá að láta gögn til staðfestingar fylgja framtali sínu.

Réttur til samsköttunar
Þau sem skráð eru í óvígða sambúð eiga rétt á samsköttun ef sambúð hefur varað a.m.k. í eitt ár í lok tekjuárs, eða ef þau eiga saman barn eða áttu von á barni saman í lok tekjuárs. Séu skilyrðin uppfyllt þurfa framteljendur að tilgreina, á eyðublaði RSK 3.27, hvort þeir vilji vera skattlagðir saman eða í sitt hvoru lagi. Sé samsköttun valin þarf einnig að tilgreina það í lið 1.2 á forsíðu framtals.

Einstætt foreldri
Hafi einstætt foreldri tekið upp sambúð á tekjuárinu, með öðrum en hinu foreldri barnsins, helst rétturinn til að fá ákvarðaðar barnabætur sem einstætt foreldri í álagningu í ár.

Vaxtabætur og barnabætur
Ef par í óvígðri sambúð á rétt á samsköttun verða vaxtabætur og barnabætur ákvarðaðar eins og hjá hjónum, hvort sem þau óska samsköttunar eða ekki.

 

Fara efst á síðuna ⇑