Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 22.11.2024 19:02:22


Ξ Valmynd

7.6  Hlutabréfaeign - kaup og sala

Á eyðublaðinu Hlutabréfaeign – kaup og sala RSK 3.19 skal gera grein fyrir hlutabréfaeign í hlutafélögum, hlutum í einkahlutafélögum, stofnfjárbréfum í sparisjóðum og samvinnuhlutabréfum. Gera skal grein fyrir allri hlutabréfaeign í upphafi ársins ásamt hlutabréfakaupum og hlutabréfasölu og öðrum breytingum sem urðu á árinu. Sem dæmi um aðrar breytingar má nefna fengin jöfnunarhlutabréf og hlutabréf látin af hendi og önnur fengin í staðinn í tengslum við sameiningu félaga. Á eyðublaðinu skal því gera grein fyrir öllum breytingum sem verða á hlutabréfaeign á árinu, ásamt því að gera grein fyrir arði og staðgreiðslu af arði. Eyðublaðið skal ætíð fylgja með framtali hafi framteljandi átt hlutabréf einhvern tímann á árinu. Á eyðublaðinu er haldið utan um kaupverð hlutabréfa og verður útreikningur á söluhagnaði þar með gerður auðveldari. Öll útfylling vegna hlutabréfaeignar og vegna kaupa og sölu hlutabréfa er gerð á eyðublaðinu. Hlutabréfaeign í árslok og eftir atvikum söluhagnaður hlutabréfa mun síðan flytjast yfir á persónuframtalið í viðeigandi reiti. Ekki er því hægt að færa beint í kafla 3.5 og 3.6 á fjármagnstekjusíðu framtals.
 
Áritað er inn á eyðublaðið hlutabréfaeign í upphafi árs skv. árslokastöðu hlutabréfaeignar á framtali fyrra árs. Jafnframt er arður og staðgreiðsla af arði áritað inn á blaðið skv. innsendum hlutafjármiðum. Áritaðar eru upplýsingar um nafn, kennitölu, arð og staðgreiðslu af arði. Nafnverð hlutabréfa eins og það var í árslok 2017 er áritað sem áritað sem nafnverð hlutabréfa í ársbyrjun 2018. Hafi nafnverð verið annað í ársbyrjun skal áritun leiðrétt og þær breytingar sem urðu á nafnverði á árinu færðar í þrep 2 og 3.

Á eyðublaðinu er hlutabréfum skipt í fimm flokka, almenn hlutabréf, hlutabréf með tekjuskattskvöð, hlutabréf sem veittu frádrátt frá tekjum 2016, 2017 og 2018, sérstök hlutabréf og erlend hlutabréf.
   - Hlutabréf með tekjuskattskvöð eru hlutabréf sem fengin voru á undirverði og mismunur gangverðs og kaupverðs er tekjuskattsskyldur.  Skattskyldan vaknar við sölu þessara bréfa.
   - Hlutabréf sem veittu frádrátt frá tekjum eru eingöngu þau hlutabréf sem keypt hafa verið í ákveðnum félögum, viðurkenndum af RSK, þar sem kaupin veita ákveðinn rétt til skattfráráttar, sem gerð var grein fyrir á eyðublaði RSK 3.29 með framtali.
   - Sérstök hlutabréf eru hlutabréf 1990-1996 og kaupin veittu rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni.

Ef skrá þarf inn hlutabréf í félagi sem ekki er á eyðublaðinu er kennitala skráð inn í fyrsta reitinn í auðri línu og smellt á hnappinn >>. Ef félagið er erlent er engin kennitala skráð en smellt á hnappinn >>. Ef leiðrétta þarf eða bæta inn upplýsingum um hlutabréf í félagi sem er á eyðublaðinu er smellt á hnappinn >>. Upplýsingar um kaup, sölu og arð eru færðar inn í þar til gerða skráningamyndir sem eru í 3. eða 4. þrepi eftir atvikum. Farið er á milli skráningarmynda með því að smella á hnappana „Áfram“ eða „Til baka“. Aðeins þarf að skrá inn kaupverð hlutabréfa einu sinni. Það mun síðan verða áritað á eyðublaðið á næsta ári. Ef breytingar verða á hlutabréfaeign, s.s. með kaupum eða sölu, þarf að gera grein fyrir þeim í viðkomandi skráningarmynd.
 
Kaupverð
Með kaupverði er átt við það verð sem greitt var fyrir bréfin þegar þau voru keypt, án framreiknings, ef þau voru keypt 1997 eða síðar.
 
Hafi bréfin verið keypt 1996 eða fyrr skal kaupverð þeirra framreiknað með þeim stuðli sem gildir fyrir viðkomandi kaupár. Ef jöfnunarverðmæti bréfanna er hærra en framreiknað kaupverð er það notað í staðinn, eins og nánar er skýrt hér á eftir.
 
Gera skal grein fyrir hlutabréfaeign og kaupum og sölu hlutabréfa og stofnfjárbréfa í sparisjóðum á eyðublaðinu . Innborgun hlutafjár við stofnun hlutafélags eða við hlutafjáraukningu jafngildir kaupum á hlutabréfum og skal því gera grein fyrir innborguninni (kaupunum) á þessu eyðublaði. Samkvæmt lögum nr. 90/2003 fer söluhagnaður hlutabréfa í 22% skattþrep.
 
Söluverð
Með söluverði er átt við söluandvirði að frádregnum beinum sölukostnaði.
 
Söluhagnaður/sölutap
Hagnaður eða tap á sölu hlutabréfa telst mismunur á söluverði og kaupverði. Tap á sölu hlutabréfa er heimilt að draga frá hagnaði af sölu annarra hlutabréfa á sama ári. Tap á hlutabréfum vegna gjaldþrots eða verðfalls má ekki draga frá hagnaði. Söluhagnaður færist í reit 164 í lið 3.8 á framtali. Sölutap færist ekki á framtal.
 
Kaupverð hlutabréfa sem keypt voru 1996 eða fyrr - jöfnunarverðmæti eða framreiknað kaupverð
Við sölu á hlutabréfum sem framteljandi eignaðist fyrir árslok 1996 hefur hann val um hvort hann notar jöfnunarverðmæti hlutabréfanna eða framreiknað kaupverð.
 
Jöfnunarverðmætið er margfeldi nafnverðs þeirra hlutabréfa sem verið er að selja og jöfnunarstuðuls félagsins. Þá skal nota nafnverð eins og það var í árslok 1996, en jöfnunarhlutabréf sem kunna að hafa verið gefin út síðar teljast ekki til nafnverðs í þessu sambandi.
 
Stuðull fyrir jöfnunarverðmæti kemur sjálfkrafa fram á hlutabréfablaðinu RSK 3.19 í rafrænum skilum.

Stuðla fyrir framreikning á kaupverði hlutabréfa er að finna í kafla 8.4.1.

Kaupverð hlutabréfa sem keypt hafa verið á undirverði
Hafi starfsmaður hlutafélags keypt hlutabréf í félaginu á undirverði, þ.e. verði sem er lægra en markaðsverð, telst mismunur á kaupverði og markaðsverði til hlunninda. Hann færist í kafla 2.2 á framtali, en markaðsverðið telst kaupverð og gera skal grein fyrir því sem kaupum á eyðublaði RSK 3.19 og telst félagið vera seljandi. Þegar þessi hlutabréf eru seld færist þannig ákvarðað kaupverð, þ.e. markaðsverð eins og það var á kaupdegi, inn á eyðublaðið.
 
Keypt hlutabréf samkvæmt kaupréttarsamningi
Hafi starfsmaður gert kaupréttarsamning við félagið sem hann starfar hjá gilda almennt sérreglur um skattlagninguna. Gera skal grein fyrir kaupunum á eyðublaði RSK 3.19 og telst félagið vera seljandi. Skattlagning kemur fyrst til við sölu bréfanna ef um söluhagnað er að ræða og fer þá eftir almennum reglum um söluhagnað hlutabréfa. Til að falla undir þessa tegund skattlagningar þurfa bæði hlutafélagið og starfsmaðurinn að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. þarf hlutafélagið að fá staðfesta kaupréttaráætlun hjá ríkisskattstjóra.
 
Kaupverð hlutabréfa - niðurfært kaupverð
Hafi kaupverð verið fært niður vegna söluhagnaðar áður seldra hlutabréfa, eins og heimilt var á árunum 1996-2001, skal þannig niðurfært kaupverð lagt til grundvallar við ákvörðun söluhagnaðar.
 
Kaupverð hlutabréfa við samruna félaga
Kaupverð hlutabréfa, sem framteljandi hefur eignast við samruna hlutafélaga skv. 51. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, skal ákvarðast jafnt kaupverði þeirra hlutabréfa sem hann lét af hendi.
 
Meðalkaupverð
Þegar ákvarða skal hagnað af sölu hlutabréfa skal kaupverð hvers hlutabréfs teljast jafnt meðalkaupverði allra hlutabréfa sömu tegundar í hendi sama eiganda. Ekki þarf þó að reikna út meðalkaupverð þegar maður selur öll hlutabréf sem hann á í tilteknu félagi.
 
Erlend hlutabréf
Gera skal grein fyrir hlutabréfaeign og kaupum og sölu á hlutabréfum í erlendum félögum. Allar fjárhæðir skulu vera í íslenskum krónum. Færa skal nafnverð og kaupverð hlutabréfa sem útgefin eru í erlendum gjaldmiðli á sölugengi eins og það var þegar hlutabréfin voru keypt. Nafnverð og kaupverð er því óbreytt í krónutölu á milli ára meðan ekki er um kaup, sölu eða aðra breytingu á eignarhluta í félaginu að ræða. Um sölu á erlendum hlutabréfum gilda sömu reglur og um íslensk hlutabréf hvað varðar söluverð, kaupverð bréfa sem keypt voru 1997 og síðar og framreikning kaupverðs á bréfum sem keypt voru 1996 eða fyrr. Ekki er til jöfnunarverðmæti fyrir erlend hlutafélög.

Verðlaus hlutabréf - félög í skiptameðferð
Hlutabréf í nokkrum stórum almenningshlutabréfum teljast verðlaus þótt félögunum hafi ekki verið formlega slitið, m.a. hlutabréf í gömlu viðskiptabönkunum og stofnfjárbréf í stærstu sparisjóðunum. Markaðsvirði gömlu bankanna og stærstu sparisjóða (Landsbanka, Glitnis, Kaupþings, SPRON, Straums-Burðaráss, Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík) hefur þegar verið fært niður í 0 kr. í þessari skráningarmynd hjá öllum hluthöfum.

 

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑