1.2 Ósk um samsköttun
Karl og kona í óvígðri sambúð, sem ekki hafa áður fengið samsköttun (og eru með fjölskyldumerkinguna 7 á framtali) geta sótt um samsköttun í lið 1.2. Sama gildir um sambúð einstaklinga af sama kyni. Ef talið er fram á vefnum þarf að staðfesta umsóknina með því að skrá hvort sinn veflykil í reiti sem upp koma þegar framtalið er opnað í fyrsta sinn. Sambúðarfólk sem áður hefur fengið samsköttun (og er með fjölskyldumerkinguna 6 á framtali) fær sameiginlegt framtal og hjá þeim er búið að merkja við ósk um samsköttun.
Sambúðarfólk með fjölskyldumerkingu 1, 2 eða * sem telur sig eiga rétt á samsköttun sækir um hana með því að merkja við umsókn um samsköttun á fyrstu síðu framtals og skrá kennitölu sambúðarmanns/-konu. Þetta þarf að gera á framtölum beggja svo umsóknin sé tekin gild.
Framtal hjóna
Hjón skila sameiginlegu framtali. Hvort um sig fyllir út sína forsíðu og tekjusíðu. Í lið 1.1 eru árituð nöfn barna á framfæri þeirra, yngri en 18 ára. Upplýsingar um fjármagnstekjur, eignir og skuldir eru á sameiginlegum síðum. Hjón bera sameiginlega ábyrgð á sköttum sem á eru lagðir samkvæmt framtalinu. Skila ber framtalinu og fylgiskjölum þess í einu lagi.
Á giftingarári geta hjón valið um að telja fram og skattleggjast saman allt árið eða að telja fram tekjur sínar í sitt hvoru lagi fram að giftingardegi en sem hjón frá þeim degi til ársloka. Sé seinni kosturinn valinn þarf að skila þremur framtölum á pappír. Eignatekjur, eignir og skuldir skal telja fram sameiginlega.
Staðfest samvist
Par í staðfestri samvist er skattlagt eins og hjón. Á því ári sem samvist er staðfest er valkvætt hvort talið er fram sameiginlega fyrir allt árið eða í sitt hvoru lagi fram að staðfestingardegi og sameiginlega frá þeim degi til ársloka (þá verður að telja fram á pappír).
Samskattað sambúðarfólk - heimild til samsköttunar
Karl og kona í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem í samvistum eru, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem uppfylla skilyrði fyrir að vera skráð í sambúð í þjóðskrá enda eigi þau barn saman eða von á barni saman eða sambúðin hefur varað í samfellt eitt ár hið skemmsta. Sama gildir um sambúð einstaklinga af sama kyni. Sé óskað samsköttunar færast tekjur og eignir á sameiginlegt skattframtal. Skattlagning fer eftir sömu reglum og gilda um hjón. Hafi sambúðarfólk verið samskattað á sl. ári fær það framtal með sameiginlegu eignablaði, eins og hjón.
Það athugist að sambúðarfólk sem skilar sameiginlegu skattframtali ber sameiginlega ábyrgð á að staið sé skil á þeim sköttum sem lagðir eru á samkvæmt skattframtalinu
Sambúðarfólk sem ekki er samskattað
Sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, en óskar ekki samsköttunar, skilar hvort sínu framtali. Barnabætur og vaxtabætur reiknast samt sem áður eins og hjá hjónum og skiptast jafnt á milli þeirra við álagningu. Börn á heimili þeirra eru skráð í lið 1.1 hjá báðum.
Sambúðarfólk sem var samskattað á síðasta ári og óskar ekki samsköttunar í ár, þarf að telja fram á pappír.
Hjónaskilnaður, samvistarslit, sambúðarslit
Hjón, eða par í staðfestri samvist, sem hafa skilið eða slitið samvistum og sambúðarfólk sem slitið hefur sambúð á árinu fá ekki sameiginlegt framtal. Þau geta valið um að telja fram hvort í sínu lagi allt árið eða að telja sameiginlega fram til skilnaðardags en í sitt hvoru lagi frá þeim degi til ársloka.
Hafi hjón eða par í staðfestri samvist samnýtt persónuafslátt þannig að annað hefur nýtt persónuafslátt hins á staðgreiðsluárinu, skal telja þannig nýttan persónuafslátt þeim fyrrnefnda til góða en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Gera skal sérstaka grein fyrir þessari nýtingu í athugasemdum í lið 1.4 á framtali.
Andlát maka
Á andlátsári annars hjóna er eftirlifandi maka heimilt að telja fram tekjur sínar og hins látna eins og um hjón sé að ræða allt árið en persónuafsláttur fyrir hinn látna reiknast í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði. Réttur til að nýta persónuafslátt og telja fram tekjur eins og hjá hjónum færist yfir áramót og helst þar til 9 mánaða tímabilið er liðið.
Eftirlifandi maki getur óskað sérsköttunar frá andlátsdegi maka til ársloka. Þá þarf að skila sameiginlegu framtali fram að andlátsdegi, en sérframtölum fyrir hinn eftirlifandi og dánarbú hins látna frá þeim tíma og til ársloka.