LEIÐRÉTTINGIN
2.2.4 Yfirlit umsóknar og staðfesting
Í yfirliti umsóknar kemur fram það sem valið hefur verið, þ.e. fjárhæðir, hvort umsækjandi vill fullnýta allt sem heimilt er eða takmarka það, í hvaða séreignarsjóð er greitt og inn á hvaða lán á að ráðstafa greiðslunum. Til þess að unnt sé að ljúka umsókninni þarf að yfirfara þessar upplýsingar.Einnig þarf umsækjandi að staðfesta að hann hafi kynnt sér þær reglur sem gilda um ráðstöfun á séreignarsparnaði til greiðslu á húsnæðislánum og húsnæðissparnaðar, m.a. reglur um að ríkisskattstjóri skuldi halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar vegna framkvæmdarinnar og að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli hafa aðgang að þeim upplýsingum um sína viðskiptavini. Um þetta er kveðið á í 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.
Úr 1. gr. laga nr. 40/2014
Ríkisskattstjóri skal halda skrá yfir nauðsynlegar upplýsingar vegna framkvæmdar ákvæðis þessa. Skráin skal m.a. byggð á eftirfarandi upplýsingum:
- Upplýsingum frá umsækjanda sem staðfestar hafa verið af vörsluaðilum séreignarsparnaðar og lánveitendum, eftir því sem við á.
- Upplýsingum frá lánveitendum um greiðsluskilmála lána.
- Upplýsingum sem ríkisskattstjóri ræður yfir á grundvelli skattframkvæmdar, eftir því sem nauðsynlegt er.
Vörsluaðilar skulu eiga aðgang að upplýsingum um sína viðsemjendur úr skrá ríkisskattstjóra skv. 6. mgr. Þá skulu vörsluaðilar ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári, í fyrsta sinn í nóvember 2014 en eftir það eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Vörsluaðilar skulu ráðstafa greiðslum til lánveitenda á þeim tíma þegar greiðslur geta farið inn á höfuðstól valinna lána í skilum skv. 1. málsl. 9. mgr. Upplýsingar um greiðslur skulu sendar rafrænt til ríkisskattstjóra.