3.7 Leigutekjur
Séu tekjur af útleigu eignar lægri en hlunnindamat samkvæmt skattmati, skal telja hlunnindamat eignarinnar fram sem leigutekjur. Sjá reglur um húsnæðishlunnindi í kafla 2.2.4. Sama á við þegar húsnæði er látið í té án endurgjalds.
Leigutekjur af íbúðarhúsnæði
Hafi framteljandi tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis skal hann færa brúttótekjur, án frádráttar, í reit 510 á framtali, kafla 3.7. Af þeirri fjárhæð mynda 70% skattstofn en 30% leigutekna eru skattfrjálsar.
Hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði og á sama tíma leigugjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, er heimilt að draga leigugjöldin frá leigutekjum. Frádráttur þessi leyfist eingöngu á móti leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er leigt út tímabundið. Mismunurinn færist í reit 510 á framtali. Neikvæður mismunur færist ekki á framtal.
Sé óskað eftir að færa leigugjöld erlendis til frádráttar leigutekjum, þarf að leggja fram afrit af hinum erlenda leigusamningi sem viðbótargögn.
Tímabundnar aðstæður
Sérstakar tímabundnar aðstæður geta t.d. verið nám, veikindi eða atvinnuþarfir, sem valda því að eigandi íbúðarhúsnæðis getur ekki sjálfur nýtt það til íbúðar. Með tímabundnum aðstæðum er átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota. Almennt skal miða við að tímabundnar aðstæður vari ekki lengur en þrjú ár, sem þó er heimilt að framlengja það þegar sérstaklega stendur á.
Leigutekjur af öðrum eignum
Tekjur af útleigu annarra eigna eða eignaréttinda, sem ekki telst til atvinnurekstrar, skal færa í reit 511 á framtali, kafla 3.7. Þar skal skrá brúttótekjur, án frádráttar.
Útleiga sem fellur undir atvinnurekstur
Falli útleiga á húsnæði, eignaréttindum eða öðrum eignum undir atvinnurekstur á að telja leigutekjur fram sem rekstartekjur en ekki færa þær í kafla 3.7 á framtali.
Útleiga á atvinnurekstrarhúsnæði telst til atvinnurekstrar. Útleiga á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar nema fyrningargrunnur þess í árslok nemi a.m.k. kr. 29.324.700 hjá einstaklingi eða kr. 58.649.400 hjá hjónum.