Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 25.11.2024 14:48:35


Ξ Valmynd

1.8.2  Rafræn skilríki og veflyklar

Til að geta talið fram á vefnum þarf annað hvort að hafa rafræn skilríki eða veflykil.

Notkun rafrænna skilríkja
Ef framteljandi auðkennir sig með rafrænu skilríki til að komast inn á þjónustusíðu sína á skattur.is getur hann opnað framtal sitt, fyllt það út og skilað. Það sem sagt er hér að aftan um notkun veflykla gildir einnig um rafræn skilríki, þ.e. að nóg er að annað hjóna auðkenni sig til að opna hjónaframtal og hægt er að skil framtölum fyrir börn yngri en 16 ára með skilríki foreldris/framfæranda.
Mælt er með að notuð séu rafræn skilríki frekar en veflykill, þar sem öryggi rafrænna skilríkja er meira.

Notkun veflykla
Veflykill er aðgangsorð sem framteljendur geta fengið sent í heimabanka eða á lögheimili. Framteljendur verða að gera veflykil sinn varanlegan.
 
Veflykillinn ásamt kennitölu veitir aðgang að þjónustusíðu framteljanda og framtali hans á skattur.is. Eftir að útfyllingu framtals er lokið þarf að nota veflykilinn til að staðfesta sendingu þess til Skattsins. Hjá hjónum og samsköttuðu sambúðarfólki dugir annar veflykillinn til að opna framtalið á vefnum og skila því.
 
Ef skila þarf framtali fyrir barn yngra en 16 ára (fætt 2007 eða síðar) er framtalið sótt á þjónustusíðu framfæranda og skilað með veflykli hans. Börn eiga ekki þjónustusíðu. Hjá hjónum skiptir ekki máli hvor þjónustusíðan er notuð vegna barns.
 
Veflykill 2023
Veflykill er aðgangsorð sem veitir framteljendum aðgang að þjónustusíðu sinni á skattur.is. Þeir sem útbúið hafa varanlegan veflykil nota hann áfram. Fái fólk ekki sendan nýjan veflykil í byrjun mars, þá gildir sá gamli áfram.
 
Þeir sem fá nýjan veflykil þurfa að breyta honum í varanlegan lykil til þess að fá fullan aðgang að efni á þjónustusíðu og til að tryggja frekara öryggi en ella. Mikilvægt er að velja lykilorð sem framteljandi á auðvelt með að muna og hann telur öruggt.

Umsókn um nýjan veflykil
Þeir sem hafa týnt eða gleymt eða af öðrum orsökum hafa ekki undir höndum gildan veflykil geta sótt um nýjan lykil á þjónustuvef Skattsins, skattur.is.
 
Unnt er að velja um að fá hann sendan í vefbanka strax eða á lögheimili innan tveggja til þriggja virkra daga.
 
Einnig má snúa sér til Skattsins og fá afhentan veflykil gegn framvísun persónuskilríkja.
 
Veflykill fyrir erlendis búsetta og fyrir dánarbú
Framteljendur með lögheimili erlendis fá hvorki áritað framtal né veflykil. Þeir sem eiga varanlegan veflykil geta nýtt hann áfram. Aðrir geta sótt um að fá úthlutað veflykli. Sama gildir um forráðendur dánarbúa manna sem létust á árinu 2021. Það er gert með umsókn á skattur.is.
 
Skatturinn svarar umsókninni og úthlutar veflykli með bréfi (ekki í tölvupósti) til umsækjanda.
 
Framtalsgerð fagmanna
Ef endurskoðandi eða bókari annast framtalsgerðina og notar til þess framtalsforrit, samþykkt af Skattinum, eða skilar á skattur.is, þarf hann að nota veflykil framteljanda til að staðfesta sendinguna.
 
Þess ber að geta að þeir sem talið hefur verið fram fyrir af endurskoðendum eða bókurum á fyrri árum fá ekki sendan nýjan veflykil nú, enda gildir eldri lykill áfram til slíkra skila. Í flestum tilvikum veitir sá lykill eingöngu rétt til framtals- og gagnaskila en ekki fullan aðgang að þjónustusíðu.
 
Þeir framteljendur sem ekki hafa fengið sendan nýjan veflykil af þessum sökum og hyggjast telja fram sjálfir að þessu sinni geta sótt um nýjan lykil á þjónustuvef Skattsins, skattur.is.

 

Fara efst á síðuna ⇑