2.2.3 Bifreiđahlunnindi
Full og ótakmörkuð umráð:
Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið, jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skal meta þau starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.
Hafi starfsmaður fleiri en eina bifreið frá launagreiðanda sínum til fullra eða ótakmarkaðra umráða samtímis fyrir sig eða fjölskyldu sína skal reikna starfsmanninum til hlunninda umráð hans yfir hverri bifreið fyrir sig.
Eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teljast ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim eru látnar í té og þeir hafa til einkanota, þ.m.t. skutbifreiðum, jeppabifreiðum, eða öðrum þeim bifreiðum sem hægt er að hafa sambærileg not af.
Útreikningur bifreiðahlunninda:
Við ákvörðun á fjárhæð fullra bifreiðahlunninda skal miða við aldur og verð bifreiðar að meðtöldum virðisaukaskatti. Jafnframt þarf að taka tillit til þess hvort bifreið er í eigu launagreiðanda eða hvort hann hefur hana t.d. á rekstrarleigu. Niðurfærsla á verði til útreiknings á bifreiðahlunnindum reiknast alltaf af því verði sem útreikningur hlunninda var byggður á árið áður.
Bifreið í eigu launagreiðanda - keypt 2014 eða síðar.
Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af upphaflegu kaupverði bifreiðarinnar samkvæmt eignaskrá launagreiðandans eða þess sem innir hlunnindin af hendi. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af kaupverði hennar.
Bifreið í eigu launagreiðanda – keypt 2013 eða fyrr.
Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint í bæklingnum Bifreiðaskrá, RSK 6.03, fyrir það ár sem bifreiðin var tekin í notkun. Sé bifreiðin ekki í skránni skal miða við verð á sambærilegum bifreiðum. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir kaupár en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.
Bifreið sem er ekki í eigu launagreiðanda.
Ársumráð slíkrar bifreiðar skulu miðast við 28% af verði bifreiðarinnar samkvæmt verðlista viðkomandi bifreiðaumboðs þegar launagreiðandi fær umráð yfir bifreiðinni, t.d. þann dag sem bifreið er tekin á leigu. Heimilt er að færa verð bifreiðarinnar niður um 10% á ári, í fyrsta skipti á árinu eftir að launagreiðandi fær umráð yfir henni en mest þannig að viðmiðunarverð til útreiknings á bifreiðahlunnindum verði aldrei lægra en 50% af verði hennar.
Greiði starfsmaður sjálfur rekstrarkostnað bifreiðar sem hann hefur til umráða skal lækka hlutfall hlunninda um 6% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan. Með rekstrarkostnaði í þessu sambandi er átt við eldsneytiskostnað, smurningu, þrif o.þ.h.
Ef um er að ræða bifreið sem eingöngu notar rafmagn sem orkugjafa og starfsmaður hleður bifreiðina á eigin kostnað, en annar rekstrarkostnaður er greiddur af launagreiðanda, er heimilt að lækka hlutfall hlunninda um 1% af verði bifreiðarinnar eins og það er skilgreint að framan.
Sé bifreið í sameign starfsmanns og launagreiðanda skal, í samræmi við framanritað, telja starfsmanni til hlunninda umráð þess hluta bifreiðarinnar sem er í eigu launagreiðanda.
Takmörkuð afnot
Hafi starfsmaður haft afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni, enda sé hún að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launagreiðanda. Takmörkuð afnot á árinu 2022 skulu metin til tekna miðað við 120,00 kr. á hvern ekinn kílómetra. Gögn um takmörkuð afnot skulu greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum, hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá starfsmanni. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full umráð bifreiðar eins og greint er frá hér að framan.
Þegar bifreið launagreiðanda er notuð til að koma starfsmönnum milli heimilis og vinnustaðar utan þess tíma sem almenningssamgöngur eru fyrir hendi og kjarasamningar kveða á um slíkt, skal ekki telja þann akstur til skattskyldra tekna starfsmanna. Við þessar aðstæður er heimilt að launþegi nýti bifreið þessa til aksturs milli heimilis síns og vinnustaðar, enda sé honum jafnframt gert að sækja/skila öðrum starfsmönnum sama launagreiðanda til og frá heimilum þeirra, við upphaf eða lok vinnudags.