Leiðbeiningar um rafræn skil, sótt 25.11.2024 11:17:42


Ξ Valmynd

5  Skuldir

Gera skal grein fyrir öllum skuldum í árslok, þ.m.t. skuldum við greiðslukortafyrirtæki og smálánafyrirtæki.
 
Þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eiga rétt á vaxtabótum og sama á við um þá sem keypt hafa búseturétt/eignarhlut í kaupleiguíbúð, enda eigi búseturétthafi ekki rétt á húsaleigubótum. Rétturinn stofnast á því ári þegar íbúð eða eignarhluti er keyptur eða bygging er hafin. Vaxtabætur ákvarðast samkvæmt upplýsingum á framtali og til að fá vaxtabætur þarf að gera sundurliðaða grein fyrir lánum og greiddum vaxtagjöldum.
Upplýsingar um íbúðalán og vaxtagjöld vegna kaupleiguíbúða koma fram á sundurliðunarblaði með framtali.
 
Lánaupplýsingar
Lánaupplýsingar frá bönkum, sparisjóðum og verðbréfafyrirtækjum eru áritaðar á framtalið eða inn á sundurliðunarblaðið, ef ekki liggur ljóst fyrir hvort lánin eiga að færast í kafla 5.2 eða 5.5. Framteljandi þarf þá að ákveða hvar þær eru færðar á framtal, sbr. umfjöllun um lánaupplýsingar á sundurliðunarblaði.
 
Skuldir á sundurliðunarblaði sem flytja þarf á framtal
Á sundurliðunarblaðið með framtalinu eru færðar lánaupplýsingar frá bönkum, lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði. Ef ekki liggur fyrir hvort þessi lán veita rétt til vaxtabóta eru þau ekki árituð á framtalið og þarf framteljandi sjálfur að færa þau á viðeigandi stað, þ.e. íbúðalán í lið 5.2, önnur lán í lið 5.5, og lán sem tengjast eigin atvinnurekstri á viðeigandi rekstrarblað.
Á sundurliðunarblaðinu eru einnig lánaupplýsingar vegna ökutækja. Þegar ekki er ljóst hvort lánin séu vegna ökutækis sem notað er í rekstri eru lánin þó ekki árituð á framtalið heldur þarf framteljandi sjálfur að færa þau á viðeigandi stað.

 

Nánar:

 

Fara efst á síðuna ⇑