FRAMTALSLEIÐBEININGAR 2020
7.6.1 Útfylling á RSK 3.19 - Hlutabréf
Áritað er inn á eyðublaðið hlutabréfaeign í upphafi árs skv. árslokastöðu hlutabréfaeignar á framtali fyrra árs. Jafnframt er arður og staðgreiðsla af arði áritað inn á blaðið skv. innsendum hlutafjármiðum. Áritaðar eru upplýsingar um nafn, kennitölu, arð og staðgreiðslu af arði. Nafnverð hlutabréfa eins og það var í árslok 2018 er áritað sem nafnverð hlutabréfa í ársbyrjun 2019. Hafi nafnverð verið annað í ársbyrjun skal áritun leiðrétt og þær breytingar sem urðu á nafnverði á árinu færðar í þrep 2 og 3. Einungis eru áritaðar upplýsingar um innlend hlutafélög og eru þau öll færð í kaflann fyrir almenn hlutabréf. Ef hlutabréf eiga að fara í kaflann fyrir sérstök hlutabréf, en þar skal færa hlutabréf sem keypt voru á árunum 1990 til 1996 í félögum sem fjárfesting í var frádráttarbær frá tekjuskattsstofni, þarf að ógilda færsluna og færa hlutabréfin í kaflann fyrir sérstök hlutabréf.
Ef nafn og kennitala félags er áritað er byrjað á því að smella á hnappinn >>. Við það er farið inn í skráningarmyndir þar sem allar upplýsingar um hlutabréfaeignina eru færðar inn. Ef nafn og kennitala félagsins er ekki áritað þarf að skrá kennitölu félagsins í fyrsta dálkinn (land ef félagið er erlent) og smella á hnappinn >>.
Skráning upplýsinga um almenn og erlend hlutabréf er í fjórum þrepum. Í fyrsta þrepi er fært inn kaupverð þeirra hlutabréfa sem voru í eigu framteljanda í ársbyrjun 2019 (ef bréf koma ekki árituð inn á eyðublaðið), en það er nauðsynlegt til að reikna út söluhagnað hlutabréfanna þegar þar að kemur. Í þrepi tvö er gerð grein fyrir hlutabréfakaupum og öðrum breytingum til hækkunar á nafnverði og kaupverði hlutabréfa á árinu 2019. Í þriðja þrepi er gerð grein fyrir sölu hlutabréfa og öðrum breytingum til lækkunar á nafnverði og kaupverði hlutabréfa á árinu 2019. Í fjórða og síðasta þrepinu er færður inn arður og staðgreiðsla af arði á árinu 2019. Engin kaup geta verið á sérstökum hlutabréfum og eru þrepin við skráningu þeirra því þrjú en ekki fjögur. Ef um árituð bréf frá framtali fyrra árs er að ræða, er farið beint í þrep tvö.
Aðeins þarf að skrá inn kaupverð hlutabréfa einu sinni. Það mun síðan verða áritað á eyðublaðið á næsta ári. Vakin er athygli á því að í mörgum tilvikum hefur verið áritað 9999 sem kaupár og 0 sem kaupverð. Framteljendur eru hvattir til færa inn raunverulegt kaupár og kaupverð ef þær upplýsingar eru þeim tiltækar. Ef upplýsingarnar finnast ekki fyrir framtalsskil á þessu ári er hægt að færa inn kaupárið og kaupverðið við framtalsgerð á næsta ári. Ef ekkert er áritað og upplýsingar um kaupár og kaupverð liggja ekki fyrir skal skrá 9999 sem kaupár og færa 0 sem kaupverð.
Lægra raunvirði hlutabréfa:
Ef verðmæti hlutabréfa (markaðsvirði) er lægra en nafnverð þeirra, er heimilt að færa þau á raunvirði til eignar.
Neðst á eyðublaðinu RSK 3.19 er hnappurinn "Lægra raunverð". Ef smellt er á hann kemur upp skráningarmynd þar sem hægt er að skrá raunvirði/markaðsverð í reitinn "Lægra raunverð". Hlutabréfin færast þá til eignar í lið 3.5 á framtali á því verði, í stað nafnverðs.
Nafnverðið stendur eftir sem áður óbreytt á hlutabréfablaðinu RSK 3.19.
NB. Markaðsvirði gömlu bankanna og stærstu sparisjóða (Landsbanka, Glitnis, Kaupþings, SPRON, Straums-Burðaráss, Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík) hefur þegar verið fært niður í 0 kr. í þessari skráningarmynd hjá öllum hluthöfum.
Nánar: