1.1 Almennt um þjónustuvefinn
Þjónustusíða er vettvangur rafrænna samskipta við skattyfirvöld. Þar er hægt að skila framtali ásamt fylgiskjölum og fá bráðabirgðaútreikning um leið og framtal er fyllt út/skilað. Þar er líka að finna “gagnaskil”, þar sem hægt er að skila launamiðum, verktakamiðum og fleiri gögnum. Hlutafélög skila einnig hlutafjármiðum í gagnaskilum.
Einstaklingar og fyrirtæki í atvinnurekstri geta skilað bæði staðgreiðslu og virðisaukaskatti rafrænt, en hægt er að stofna til rafrænna skila á þjónustusíðu.
Til að geta nýtt alla þá kosti sem þar eru í boði þarf fyrst að breyta veflyklinum inni á þjónustusíðu og gera hann varanlegan. Þá bætast við ýmsir möguleikar, eins og að fá staðfest afrit af framtölum, skoða álagningarseðil, senda ríkisskattstjóra skattkæru eða beiðni um leiðréttingu yfir vefinn og fleira.
Einn liður á þjónustusíðu heitir “Almennt” og þar er ýmsar upplýsingar að finna. Launamenn geta þar séð yfirlit yfir þá staðgreiðslu sem launagreiðandi hefur haldið eftir og skilað til innheimtumanns. Þá eru þar ýmsar aðrar upplýsingar, bæði úr gögnum skattyfirvalda og frá öðrum stofnunum.